Home / Fréttir / Rætt um Rússa og Úkraínumenn í Riga og Stokkhólmi

Rætt um Rússa og Úkraínumenn í Riga og Stokkhólmi

 

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna í Riga.

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hittust á þriðjudag og miðvikudag í Riga, höfuðborg Lettlands. Á fundum þeirra bar hæst að Rússar safna enn á ný miklu herliði við austur landamæri Úkraínu, í suðri á Krímskaga og í norðri í Hvíta-Rússlandi.

Frá Kiev, höfuðborg Úkraínu, berast fréttir um að stjórnvöld þar telji rússneska innrás yfirvofandi. Samtímis því sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir NATO-ríkin standa við hlið Úkraínumönnum minnir hann á að þeir séu ekki í NATO og þess vegna nái 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll ekki til Úkraínu.

Í NATO eru 30 ríki en utanríkisráðherrar 57 ríkja sitja árlegan fund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Stokkhólmi fimmtudaginn 2. desember. Fyrir fundinn bárust fréttir um að Vladimir Pútin Rússlandsforseti teldi að krafa Úkraínustjórnar um að fá aftur ráð yfir Krímskaga væri bein ógn við Rússland.

Það var talsmaður forsetans sem flutti þessi boð.

Utanríkisráðherrar Bandarikjanna og Rússlands eru meðal fundarmanna í Stokkhólmi.

Vegna ÖSE-fundarins sagði Vladimir Pútin miðvkudaginn 1. desember að í Stokkhólmi myndu Rússar krefjast staðestingar á að vestræn ríki ábygrðust að NATO stækkaði ekki meira í austur og fleiri vopnum yrði ekki komið fyrir í nágrenni við landamæri Rússlands.

Af  vestrænni hálfu hefur hvað eftir verið áréttað að Rússar hefðu ekkert neitunarvald um stækkun NATO. Það væru aðildarríkin og hugsanleg umsóknarríki sem tækju ákvarðanir um stækkun bandalagsins og aðild að því.

Í liðinni viku fullyrti Volodymyr Zelenskij, forseti Úkraínu, að „útsendarar Rússa“ undirbyggju valdatöku í Kiev. Í Moskvu hefur þessu verið andmælt sem „and-rússneskri móðursýki“.

Miðvikudaginn 1. desember fór Volodymyr Zelenskij þess á leit að beinar viðræður hæfust milli Úkraínumanna og Rússa til að binda enda á hernaðarástand milli þjóðanna. Hnn vildi hitta Pútin og ræða beint við hann.

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …