Innan Evrópusambandsins velta stjórnmálamenn fyrir sér hvort sambandið eigi að innleiða eigin Magnitskíj-lög, það er herða refisaðgerðir gegn Rússum. Aðgerðirnar taka mið af mannréttindabrotum rússneskra yfirvalda og eru Hollendingar helstu hvatamenn þess að málið verði kannað til hlítar.
Bill Browder, höfundur bókarinnar Eftirlýstur, hvatti til þess að Bandaríkjaþing samþykkti Magnitskíj-lög en þau eru nefnd í höfuðið á lögfræðingi Browders sem var myrtur í rússnesku fangelsi. Browder hefur lengi barist fyrir setningu sambærilegra laga í Evrópu og segir fimmtudaginn 22. nóvember við Deutsche Welle að nú sé lag til að vinna málinu stuðning. Lagasetningin hefði hörmulegar afleiðingar fyrir Vladimir Pútín Rússlandsforseta og klíku hans þar sem þeir eigi risafjárhæðir og eignir innan ESB.
ESB hóf refsiaðgerðir gegn Rússum í mars 2014 eftir að þeir innlimuðu Krímskaga. Þær hafa oft verið framlengdar síðan. Leiðtogaráð ESB tekur ákvörðun um aðgerðirnar á sex mánaða fresti. Nú er gildistími þeirra til 31. janúar 2019. Þær felast í frystingu eigna og innflutningsbanni á vörur frá Krím og Sevastopol og banni á skemmtiferðum til þessara staða.
Fyrir tveimur vikum sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að bandarísk stjórnvöld ætluðu að endurnýja refsiaðgerðir sínar gegn Rússum. Þær voru hertar nú í ágúst eftir að staðfest var að leyniþjónista rússneska hersins, GRU, stóð að baki eiturefnaárásinni á Sergei Skripal í Salisbury á Englandi í mars 2018.
Í nýlegri skýrslu Bloomberg Economics segir að verg landsframleiðsla (VLF) „stærsta orkuútflytjanda heims“ sé nú 10% minni en vænta mátti í árslok 2013. Þjóðarbúið hafi mátt þola lækkun olíuverðs en í skýrslunni segir að refsiaðgerðirnar séu „meiri skaðvaldur“.
Hagvöxtur í Rússlandi hefur verið 1-2% undanfarin tvö ár. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði nýlega að hann yrði 1,7% árið 2018 og 1,8% árið 2019.