Home / Fréttir / Rætt um ESB-her á fundi þríveldanna á Ítalíu

Rætt um ESB-her á fundi þríveldanna á Ítalíu

François Hollande, Matteo Renzi og Angela Merkel á fundinum á Ítalíu
François Hollande, Matteo Renzi og Angela Merkel á fundinum á Ítalíu

Hugmyndin um að koma á fót Evrópuher undir merkjum ESB var til umræðu á þríveldafundi Angelu Merkel Þýskalandskanslara, François Hollandes Frakklandsforseta og Matteos Renzis, forsætisráðherra Ítalíu, mánudaginn 22. ágúst á Ítalíu.

Ríkisoddvitar landanna þriggja komu saman til að ræða stöðu og stefnu Evrópusambandsins eftir ákvörðun Breta um að segja sig úr því. Bretar stóðu eindregið gegn hugmyndum um ESB-her og töldu hann kunna að skaða NATO-samstarfið með tvöföldun herstjórna og tvíverknaði af öðru tagi. Á blaðamannafundi þríveldanna á Ítalíu kom fram samstaða um að nauðsynlegt væri að auka og dýpka samstarf ESB-ríkjanna í varnar- og öryggismálum. François Hollande lagði sérstaka áherslu á nauðsyn þess að herða gæslu á ytri landamærum ESB.

Sama dag og fundurinn var á Ítalíu hélt Bohuslav Sobotka, forsætisráðherra Tékklands, ræðu í Prag yfir starfsmönnum utanríkisþjónustu lands síns og sagði óhjákvæmilegt að koma á fót sameiginlegum her ESB. Bregðast yrði við hryðjuverkaógninni, straumi farandfólks til Evrópu og „nýju árásargjarnara Rússlandi“ með nýskipan hermála.

Ráðherrann vék sérstaklega að gæslu landamæra og sagði:

„Andspænis stjórnlausum straumi farandfólks verða jafnvel ríki í miðri Evrópu að grípa til ráðstafana til að gæta innri landamæranna … samhliða betur samræmdri stefnu í utanríkis- og öryggismálum tel ég að til lengri tíma sé ekki unnt að vera án sameiginlegs evrópsks hers.“

Þriðjudaginn 23. ágúst sagði forsætisráðherrann að hann vildi ekki að í Tékklandi yrði til stórt samfélag múslima í ljósi reynslu annarra. Hann sagði einnig að sameiginlegur ESB-her mundi ekki keppa við NATO heldur gera ESB að „virkari og betri samstarfsaðila“.

Innan Tékklands hafa ýmsir brugðist hart við hugmynd forsætisráðherrans um ESB-herafla. Þeirra á meðal er hershöfðinginn Petr Pavel sem hefur verið formaður hermálanefndar NATO frá 2015. Hann segir hugmyndina „staðleysu“.

Umræður um ESB-her eru ekki nýjar á nálinni. Fyrir um hálfu ári, í mars 2016, hvatti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, til þess að komið yrði á fót „sameiginlegum ESB-her“ sem mundi bregast „á trúverðugan hátt“ gegn hvers kyns ytri ógn og verja „gildi“ sambandsins.

Lét hann orð um herinn falla í samtali við Welt am Sonntag og tók Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, undir með honum og áréttaði skoðun sína um nauðsyn ESB-hers eftir að Bretar höfnuðu aðild að ESB 23. júní 2016.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur hvatt ESB til að forðast tvíverknað og „tryggja að allt sem það geri falli að NATO“.

Í maí birti breska blaðið The Times frétt um að Frederica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, hefði látið semja skýrslu þar sem gert væri ráð fyrir herstjórn ESB til að stýra hernaðaraðgerðum í nafni sambandsins og væri þar tekið mið af ákvæðum Lissabon-sáttmála ESB frá árinu 2009.

Bretar lögðust hart gegn þessum hugmyndum og var sagt að þær væru ekki á dagskrá innan ESB. Nú er hins vegar annað uppi á teningnum.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …