Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Á heimasíðu Jamestown stofnunarinnar, sem rannsakar alþjóðasamskipti, birtist mánudaginn 14. janúar grein um framtíð Rússlands. Þar kemur fram að Rússar reikna ekki með að árið sem er nýhafið verði þeim hagstætt. Þannig búast 57% landsmanna við efnahagskreppu.
Þetta þarf ekki að koma á óvart þegar haft er í huga að Alþjóðabankinn spáði því nýlega að hagvöxtur í Rússlandi yrði aðeins 1,5% á næstunni og sú spá kann jafnvel að vera of bjartsýn. Vladimír Pútín, forseti Rússlands segist þó horfa björtum augum á framtíðina og lofar efnahagsumbótum en margir Rússar trúa honum ekki. Vantraustið kann að ráðast af því að verðbólga í landinu er á uppleið, tekjur heimila fara lækkandi og skattar hafa hækkað. Margir landsmenn eru líka óánægðir með að eftirlaunaaldur var hækkaður um fimm ár á nýliðnu ári.
Viðskiptaþvingunum Vesturlanda er kennt um erfiðleikana í rússneskum efnahag en Pútín hefur gengið illa að bæta tengslin við Bandaríkjastjórn. Á það ekki aðeins við á viðskiptasviðinu. Ákvörðun Bandaríkjamanna um að segja upp samningnum um meðaldræg kjarnavopn (INF-samningnum) Pútín í opna skjöldu. Hann reynir að bera sig vel en mannalæti hans hljóta lítinn hljómgrunn hjá Rússum. Nýlegir atburðir í Úkraínu hafa ekki bætt geð Rússa. Hernaðarátökin þar eru í pattstöðu og úkraínska rétttrúnaðarkirkjan hefur slitið tengslin við þá rússnesku.
Önnur alþjóðamál eru Rússum einnig óhagstæð. Afskipti þeirra af átökunum í Sýrlandi hafa verið þeim dýr og skilað þeim litlu. Stjórnvöld í Kreml vonuðust til þess að geta notað Sýrlandsstríðið til þess að draga úr áhrifum Bandaríkjamanna á svæðinu en nú þegar þeir virðast vera við það að draga sig frá Sýrlandi er sá draumur líklega úr sögunni. Fari Bandaríkjamenn mun það líka auka á spennuna á milli Rússa og Tyrkja.
Rússar hafa lagt mikla áherslu á aukna samvinnu við Kína en hún gengur ekki sem skyldi ekki síst vegna þess að Kínverjar hafa áhyggjur af efnahag Rússa. Þetta hefur m.a. leitt til þess að samstarf ríkjanna á viðskiptasviðinu er minna en Rússar vonuðu. Samvinna þjóðanna hefur ekki heldur orðið til þess að auka áhrif Rússa í Kína. Þannig hafa Kínverjar þá ekki með í ráðum í (vonlausa) verkefninu að fá Norður – Kóreumenn til þess að gefa kjarnorkuvopn sín upp á bátinn. Næsta skref í því máli mun vera, fái Kínverjar að ráða, að Kim Jong-un og Donald Trump haldi annan leiðtogafund.
Staða Rússa myndi batna tækist þeim að ná samkomulagi við Japani um Suður – Kúrileyjar en Rússar hafa hersetið þær frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Kæmi til þess yrðu Rússar ekki jafn háðir Kínverjum og um leið tækist þeim að grafa undan samstöðunni sem ríkir milli Vesturveldanna um að beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna hegðunar þeirra á alþjóðavettvangi á síðustu árum.
Eftir að Shinzō Abe, forsætisráðherra Japans, hitti Pútín á fundi tuttugu helstu efnahagsvelda heims (G20) í Buenos Aires á síðasta ári gaf hann í skyn að Japanir væru tilbúnir til samninga og þar með vöknuðu vonir um að deilan kynni að leysast. Viðræður við Japani um landssvæðið fóru hins vegar mjög fyrir brjóstið á þjóðernissinnuðum Rússum og nú hafa fréttir borist af því að Rússar hafni því að afhenda Japönum yfirráð yfir eyjunum.
Rússneski björninn er því frekar veiklulegur um þessar mundir og áróðursbrögð líkt og að senda herflugvélar í heimsókn til Venesúela breyta engu þar um. Staða mála ætti að valda Pútín áhyggjum. Áður er minnst á óánægju almennings og valdastéttin getur ekki litið framtíðina bjartari augum. Á árunum sem Pútín á eftir í forsetastóli má búast við því að stjórnmálaástandið verði óstöðugt og ekki bætir úr skák að vestræn ríki halda áfram að grafast fyrir um hvað rússneskir auðmenn hafa gert við fjármuni sem þeir hafa komið úr landi.