Home / Fréttir / Ráðist með drónum á iðnaðarvirki langt inni í Rússlandi

Ráðist með drónum á iðnaðarvirki langt inni í Rússlandi

Þriðja stærsta óliuhreinsunarstöð Rússlands brennur í Nizhnekamsk.

Drónaárás var gerð þriðjudaginn 2. apríl á iðnaðarmannvirki, þar á meðal drónasmiðju, í Tatarstan-héraði í Rússlandi. Talið er að aldrei fyrr hafi slík árás verið gerð eins langt inni í Rússlandi – rúmlega 1.200 km frá landamærum Úkraínu.

„Í morgun urðu iðnaðarmannvirki lýðveldisins í Jelabuga og Nizhnekamsk fyrir drónaárás. Tjónið er ekki alvarlegt, tæknileg starfsemi fyrirtækjanna stöðvaðist ekki,“ sagði Rustam Minnikhanov, leiðtogi rússneska sjálfsstjórnarlýðveldisins Tatarstan í færslu á Telegram

Í Jelebuga er sérstakt efnahagssvæði – Alabuga – þar eru meira en 20 iðnfyrirtæki á sviði efnaiðnaðar, véltækni og málmvinnslu. Þá eru þar að sögn einnig smíðaðir drónar.

Í Nizhnekamsk er stór olíuhreinsunarstöð.

Sérfræðingar Reuters hafa greint myndir sem sýna áhrif árásarinnar í Nizhnekamsk. Þeir segja að dróni hafi hitt aðalhreinsibúnað (CDU-7) í rússnesku Taneco-olíuhreinsunarstöðinni sem er ein stærsta stöðin í Rússlandi.

Upplýsingafulltrúi Alabuga sagði að einn af svefnskálum svæðisins hefði skemmst í árásinni og tveir einstaklingar særst. Rússneskir fjölmiðar segja að alls hafi sjö manns slasast í drónaárásunum. Heilbrigðisráðuneyti Tatarstan sagði þrjá hafa verið flutta á sjúkrahús.

Fjölmiðlar í Úkraínu segjast hafa heimildir fyrir því að helsta njósnastofnun varnarmálaráðuneytis Úkraínu (HUR) hafi skipulagt árásina á Alabuga.

Mykhaylo Fedorov, ráðherra stafrænna breytinga, sagði við Die Welt 1. apríl að Úkraínustjóri yki nú til mikilla muna smíði á drónum sem drægju meira en 1.000 km.

Úkraínski herfræðingurinn Oleh Zhdanov sagði við RFE/RL að líklega vildu Úkraínumenn granda nýrri drónasmiðju í Alabug. Spáði hann því að ráðist verði oftar á skotmörk svo langt inni í Rússlandi enda ykist framleiðsla á drónum til þess jafnt og þétt í Úkraínu. Þá væri í augsýn að Úkraínumenn smíðuðu dróna sem drægju allt að 3.000 km.

Hann sagði að í fyrra hefði verið tekin ákvörðun um smíði dróna af „fullkomnustu gerð“ og áhrifa þeirra myndi gæta fyrir lok þessa árs. Í fyrra hefðu meira en 10.000 drónastjórnendur hlotið þjálfun í Úkraínu.

Úkraínumenn smíða ekki einungis fljúgandi dróna heldur einnig til notkunar á hafi úti og ná sjá merki um áhrifamátt þeirra á Svartahafi þar sem rússneski flotinn á mjög í vök að verjast.

Úkraínuher hefur undanfarnar vikur ráðist á rússneskar olíuhreinsunarstöðvar og önnur iðnaðarmannvirki með langdrægum drónum.

Í árás sem gerð var 17. mars voru gerðar drónaárásir á margar rússneskar olíuhreinsunarstöðvar sem sagt er að vinni 12% af olíu sem Rússar hreinsa.

 

 

 

 

Í ágúst 2023 vitnaði The Washington Post í skjal sem hafði verið lekið þar sem stóð að Rússar stefndu að því að auka drónasmíði í Tatarstan og ætti að smíða þar 6.000 dróna fyrir sumarið 2025.

Í áætlum Rússa var gert ráð fyrir að auka smíði á rússneskri útgáfu íranska Shahed-drónans og bæta úr vanköntum vegna úreltrar framleiðslutækni Írana.

 

Heimild: RFE/RL

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …