Home / Fréttir / Ráðist á landgönguskip úr rússneska Norðurflotanum á Svartahafi

Ráðist á landgönguskip úr rússneska Norðurflotanum á Svartahafi

Landgönguskipið úr rússneska Norðurflotanum, Olenegorsky Gornyak.

Landgönguskip úr rússneska Norðurflotanum, Olenegorsky Gornyak, 112 m langt, marar í hálfu kafi í Svartahafi eftir að Úkraínuher sendi dróna á rússnesku flotastöðina í Novorossiisk aðfaranótt föstudagsins 4. ágúst.

Norðurflotinn hefur haldið skipinu úti á Barentshafi þar til það var sent til Svartahafs vegna stríðsaðgerða rússneska flotans þar. Í fréttum segir að leki hafi komið að skipinu eftir að mannlaus vélbátur hlaðinn sprengiefni sprakk í Novorossiisk, flotahöfn Rússa við Svartahaf.

Myndskeið hefur birst af dráttarbáti með landgönguskipið, hálfsokkið, í togi. Ætla má að það kunni að sökkva. Myndskeiðið sýnir að miðhluti skipsins er skaddaður. Örlög þess ráðast af því hve tjónið varð mikið, hvaða hólf þess eru heil og hvort milliveggir haldi.

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur ekkert sagt um tjónið á Olenegorsky Gornyak. Ráðuneytið hefur þvert á móti sagt að tveir árásardrónar hafi fundist og verið eyðilagðir. Fréttir eru um að annað herskip hafi einnig laskast í árásinni.

Undanfarið hafa Úkraínumenn gert nokkrar árásir á rússnesk herskip á Svartahafi.

Olenegorsky Gornyak er eitt þriggja landgönguskipa Norðurflotans sem hafa verið á Svartahafi síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Undanfarið hefur skipið verið notað til að flytja bíla og varning fyrir almenna borgara til og frá Krímskaga.

Skipið er 43 ára og getur flutt 450 tonn og 25 brynvarða herflutningabíla. Það var endurskráð í Norðurflotann árið 2019 eftir að hafa verið afskráð í fimm ár vegna viðgerða og endurnýjunar.

 

Heimild: Barents Observer.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …