
Atlantshafsráðið, yfirstjórn NATO, kom saman laugardaginn 14. apríl og hlýddi á skýrslu fulltrúa Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands um sameiginlega hernaðaraðgerð ríkjanna gegn Sýrlandi aðfaranótt laugardagsins.
Í fréttatilkynningu frá NATO segir að aðgerðin hafi verið takmörkuð við þær stöðvar Sýrlandsstjórnar sem nýttar séu til framleiðslu og notkunar á efnavopnum. Fulltrúar ríkjanna þriggja sögðu að ekki hefði verið um neinn annan raunhæfan kost að ræða en beita valdi.
Þá segir í tilkynningunni:
„Bandalagsríkin létu í ljós fullan stuðning við þessa aðgerð sem ætlað er að draga úr getu Sýrlandsstjórnar til að beita efnavopnum og til að koma í veg fyrir frekari efnavopnaárásir gegn íbúum Sýrlands. Það má ekki vera unnt að beita efnavopnum refsilaust eða að talið verði eðlilegt að beita þeim. Þau valda sýrlensku þjóðinni yfirvofandi hættu og einnig sameiginlegu öryggi okkar.“
Öryggisráðið
Að kröfu Rússa var boðað til fundar í öryggisáði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) laugardaginn 14. apríl í New York vegna Sýrlandsárásarinnar. Umræður stóðu þar í þrjá tíma.
Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna, sagði Sýrlandsstjórn framleiða vopn í þeim eina tilgangi að drepa sem flesta. Fastafulltrúi Sýrlands sakaði Bandaríkin um að vera ný-nýlenduríki. Rússneski fastafulltrúinn, Vassilíj Nebenzia, sagði að árásarríkin þrjú væru „lygarar, undirmálsmenn og hræsnarar“.
Í lok umræðnanna var tillaga Rússa um fordæmingu á árásunum sem brotum á alþjóðalögum og sáttmála SÞ borin undir fulltrúa ríkjanna 15 í öryggisráðinu og hlaut aðeins stuðning Rússa, Bolivíumanna og Kínverja.
„Viljið þið að svona sé staðið að afgreiðslu alþjóðamála núna?“ spurði Nebenzia. „Þetta eru skrílslæti í alþjóðasamskiptum og ekki nein minniháttar skrílslæti enda erum við að tala um meiriháttar kjarnorkuveldi.“
François Delattre, fastafulltrúi Frakka, svaraði að bragði: „Stofnsáttmálinn var ekki saminn til að vernda glæpamenn.“
Aðgerðin
Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar skutu 103 flugskeytum á vopnabúr í Sýrlandi um kl. 04.00 að staðartíma (01.00 ísl. tíma) aðfaranótt laugardags 14. apríl. Árásin stóð í 45 mínútur og var gerð vegna ásakana um að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hefði beitt efnavopnum gegn almennum borgurum í Douma, skammt frá Damaskus, viku fyrr.

Skotið var á þrjá staði skammt frá Damaskus og Homs sem sagt er að hafi verið notaðir til rannsóknar, þróunar, framleiðslu, tilrauna og geymslu á efnavopnum.
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði laugardaginn 14. apríl að árásin hefði að þessu sinni verið þyngri en í fyrra þegar 58 flugskeytum var skotið á Sýrland eftir að ásakanir birtust um að Assad-stjórnin hefði beitt efnavopnum. Hann sagði að ekki hefði að fullu tekist að eyðileggja allt sýrlenska efnavopnakerfið en það hefði „orðið fyrir þungu höggi“.
Að morgni laugardags 14. apríl sagði Donald Trump á Twitter:
„Fullkomin framkvæmd á árás í nótt. Þakkir til Frakka og Breta fyrir visku þeirra og afl góðs herafla þeirra. Niðurstaðan hefði ekki getað orðið betri. Verkefni í höfn!“
Frakkar beittu 12 stýriflaugum, orrustuþotum og herskipum.
Bretar beittu fjórum orrustuþotum til að skjóta flugskeytum á stöð fyrir vestan Homs.
Rússar sögðu að Sýrlendingar hefðu með loftvarnakerfum sínum grandað um 70 flugskeytum á leið til skotmarka í Sýrlandi. Joseph Dunford hershöfðingi, formaður sameinaða bandaríska herráðsins, sagðist hins vegar ekki vita um neinn skaða hjá árásarherjunum. Síðar sagði í yfirlýsingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins „sýrlensk vopn höfðu engin áhrif á vestrænar árásir í Sýrlandi“.
Skýrsla Frakka
Frakkar birtu laugardaginn 14. apríl 8 bls. skýrslu því til sönnunar að Sýrlandsstjórn hefði staðið að baki mörgum efnavopnaárásum á eigin þjóð.
Skýrslan er reist á „traustum upplýsingum“ og hefur farið leynt þar til núna að hún er birt til að styðja réttmæti ákvörðunarinnar um að ráðast á sýrlensku stöðvarnar.
Rússar hafa fullyrt að efnavopnaárásin hafi verið sviðsett af vestrænum aðilum. Þeirri kenningu er afdráttarlaust hafnað af Frökkum. Einnig að árásin hafi verið gerð af sýrlenskum uppreisnarhópum.
„Það ríkir enginn vafi um staðreyndir og ábyrgð Sýrlandsstjórnar. Farið var yfir rauðu línuna sem Frakkar drógu í maí 2017,“ sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, boðaði nýjar aðgerðir yrði að nýju farið yfir rauðu línuna. Hann sagði aðgerðina nú hafa „heppnast vel“. Það hefði tekist að eyðileggja „mikinn hluta efnavopnabirgðanna“.
Þáttaskil í franska herflotanum
Frakkar gerðu árásina á Sýrland frá freigátunni Aquitaine sem sigldi um austurhluta Miðjarðarhafs. Notuðu Frakkar þar í fyrsta sinn flota-stýriflaug sem sett var um borð í herskip þeirra í ársbyrjun 2017. Með þessu eru Frakkar komnir í mjög þröngan hóp þjóða sem hafa burði til að skjóta stýriflaugum frá herskipum.

Stýriflaugin er 7 metra löng, vegur tvö tonn og má skjóta henni á 1.000 km hraða á klukkustund. Hittni flaugarinnar er svo mikil að skotinu geigar innan við metra sé því beint að „hertri“ byggingu eins og niðurgröfnu vopnabúri í meira en 1.000 km fjarlægð.
Sérfræðingar segja að þarna sé um hátæknivopn af fyrstu gráðu að ræða sem marki strategísk þáttaskil.
Í Evrópu hefur breski flotinn einn ráðið yfir sambærilegum stýriflaugum og notar hann bandarísku Tomahawk-stýriflaugarnar en aðeins um borð í kafbátum. Að flaugarnar séu um borð í herskipum fyrir allra augum á yfirborði sjávar styrkir að mati herfræðinga afl hers sem beitt er til að halda aftur af andstæðingnum vegna ótta hans við afleiðingar allsherjar árásar.
Um notagildi frönsku stýrifluganna gildir sama og stýriflaugar annarra að vitneskja um skotmarkið og leiðir að því ræður úrslitum um hve vel heppnuð árásin verður. Litið er á stýriflaugar sem „snjallvopn“ í þeim skilningi að þær fara ekki endilega beina skotlínu heldur laga þær sig að aðstæðum og bregðast við þeim hindrunum sem á vegi þeirra verða. Þær þjóta stundum áfram rétt yfir jörðu og fylgja nákvæmlega landslaginu. Í leiðarlok beinir infrarauður nemi þeim að skotmarkinu.