Home / Fréttir / Ráðist á andófsmenn í Rússlandi

Ráðist á andófsmenn í Rússlandi

Jegor Zhukov eftir árásina í Moskvu.
Jegor Zhukov eftir árásina í Moskvu.

Eftir að mótmæli hófust í Hvíta-Rússlandi vegna grunsemda um svindl í forsetakosningunum 9. ágúst 2020 hafa fréttir borist af árásum á tvo alkunna stjórnarandstæðinga í Rússlandi.

Aleksei Navalníj (44 ára) sem hiklaust hefur gagnrýnt Vladimir Pútin Rússlandsforseta og spillinguna í kringum hann var byrlað eitur í flugstöð í borginni Tomsk í Síberíu þegar hann fékk sér tesopa fyrir flugferð til Moskvu. Vélinni var nauðlent í Omsk 20. ágúst vegna skyndilegra veikinda Navalníjs og þaðan var hann fluttur eftir tvo sólarhinga í sjúkraflugi til Berlínar undir læknishendur á Charité-sjúkrahúsinu, liggur hann enn meðvitundarlaus.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði á fundi í París mánudaginn 31. ágúst að „svört ský“ hvíldu yfir tvíhliða samskiptum ESB við ráðamenn í Moskvu, öryggi álfunnar væri í hættu.

„Auðvitað væntum við þess að Rússar gerðu meira til að upplýsa Navalníj-málið en þeir gera á þessari stundu,“ sagði ráðherrann.

Jegor Zukov

Að kvöldi sunnudags 30. ágúst réðust tveir ókunnir menn á Jegor Zhukov (22 ára), kunnan rússneskan bloggara og aðgerðarsinna gegn stjórnvöld. Hann hafði nýlokið þátttöku í spjallþætti á YouTube þar sem hann lýsti meðal annars skoðunum sínum á mótmælaaðgerðunum í Hvíta-Rússlandi gegn Alexander Lukasjenko forseta.

Zhukov taldi hvítrússnesku mótmælin „skólabókardæmi“ sem ætti „að kanna til hlítar af þeim sem vilja breytingar til lýðræðis með friðsamlegum aðgerðum“. Í spjallþættinum sagði hann einnig: „Nútíma friðsamleg mótmæli eru umsátur … Sé steinveggur fyrir framan þig og þú lætur við það eitt sitja að berja hausnum við steininn, sigrar steinninn … Kjarni friðsamlegra mótmæla er að sigra Mike Tyson [boxarann fræga] með manntafli.“

Vinir Zhukovs birtu andlitsmynd af honum sem sýnir djúp sár og skurði eftir árásina sem þeir segja að hafi verið gerð um klukkan 22.00 30. ágúst skammt frá heimili hans í Moskvu. Lögreglan segir málið athugun. Zhukov sjálfur hefur áður sætt handtöku og sakfellingu fyrir aðild að aðgerðum gegn stjórn Pútins.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …