Home / Fréttir / Ráðgjafi Bandaríkjaforseta: Rússar eru ósamstarfshæfir á norðurslóðum

Ráðgjafi Bandaríkjaforseta: Rússar eru ósamstarfshæfir á norðurslóðum

David Balton

David Balton, sérlegur ráðgjafi Bandaríkjaforseta um norðurslóðamál, var meðal ræðumanna á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Norður-Noregi í liðinni viku.

Balton, gjarnan kallaður norðurslóðasendiherra Bandaríkjanna, ber opinbera enska titilinn executive director of the Arctic Executive Steering Committe þessi stýrhópur norðurslóðamála sem hann leiðir er hluti af vísinda- og tækniskrifstofu forsetaembættisins í Hvíta húsinu í Washington.

Balton er lögfræðingur frá Georgetown háskóla árið 1985 og hefur starfað lengi í bandarísku utanríkisþjónustunni, var meðal annars forstjóri Office of Marine Conservation, hafverndarskrifstofu ráðuneytisins.

Malte Bruhn frá dönsku vefsíðunni altinget.dk ræddi við Balton í Tromsø. Hér er vitnað til þess sem þar segir og birtist sunnudaginn 5. febrúar.

Balton segir að árásin á Úkraínu sé einnig árás á gildi okkar og þess vegna séu ekki neinar líkur á að vestræn ríki hefji að nýju samstarf við Rússa í Norðurskautsráðinu. „Við stöndum frammi fyrir verkefni sem við vitum ekki hvers eðlis er. Við höfum aldrei verið í þessari stöðu áður og vitum ekki hvað framtíðin býður,“ segir Balton.

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með þátttöku Norðurlandanna fimm, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands. Eftir innrásina í Úkraínu gerðu ríkin sjö „hlé“ á samstarfi sínu við Rússa í ráðinu. Þeir fara þar með formennsku þar til í maí 2023 þegar röðin kemur að Norðmönnum.

David Balton segir:

„Eftir lok kalda stríðsins þar til í febrúar í fyrra var unnt að tala um einskonar undantekningu á norðurslóðum (d. en slags arktisk exceptionalisme). Hún fólst í því að norðurskautsríkin mótuðu eigin samstarfsleiðir þótt þau greindi verulega á um ýmis mál annars staðar í heiminum. Sá tími er nú liðinn.“

Blaðamaðurinn skýrir þetta meðal annars með þeim orðum að jafnan hafi verið litið á norðurslóðir sem lágspennusvæði í hernaðarlegu tilliti. Þegar Bandaríkjamenn og Rússar héldu með ólíkum stríðsaðilum í Sýrlandi árið 2011 hafði það ekki áhrif á samstarf þeirra í hánorðri. Innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 setti ekki heldur fleyg í norðurskautssamstarfið, sömu sögu er að segja um ásakanir um íhlutun Rússa í bandarísku forsetakosningarnar árið 2016.

„Allan þennan tíma tókst Bandaríkjamönnum, Rússum og öðrum norðurslóðaþjóðum að vinna saman um málefni norðurskautsins. Innrásin í Úkraínu breytti á hinn bóginn viðhorfi okkar. Rússarnir sem við sjáum núna þola engan samanburð við neitt af því sem við höfðum kynnst frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar og þess vegna er ekki hægt fyrir okkur að vinna með Rússum,“ segir Balton.

Hann segir Bandaríkjamenn þó áfram hafa strategískra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og þeir muni starfa áfram með þjóðunum þar.

Á vettvangi Norðurskautsráðsins hafa öryggismál aldrei verið á dagskrá. Ríkin hafa unnið saman að umhverfis- og loftslagsmálum auk þess að huga að hagsmunum frumbyggja á svæðinu.

Þegar Balton er spurður hvort ekki sé unnt að starfa áfram með Rússum að málum sem snúa ekki að öryggi og hernaði, segir hann að innrás Rússa hafi vegið að „allri hugmyndafræðinni sem býr að baki Norðurskautsráðsins. Þetta er ekki aðeins árás á Úkraínu heldur á allt alþjóðakerfið sem reist er á virðingu fyrir lögum og reglum, við höfum stuðst við þær í norðri. Þessa vegna er ekki unnt að líta þannig á að ekkert hafi breyst í samskiptum okkar við Rússa“.

Hvað þarf að gerast til að Rússar verði að nýju galdgengir? spyr blaðamaðurinn.

„Enginn veit svarið við þessari spurningu hér og nú. Að sjálfsögðu er skilyrði að samið verði um frið, hugsanlega kunna þó einnig að verða sett fleiri skilyrði.“

David Balton telur að traust sé horfið úr samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa og það taki langan tíma að endurvekja það. Hann segist þó vona að Rússar snúi til baka í hóp siðmenntaðra þjóða svo að unnt verði að eiga við þá samstarf í norðri og annars staðar.

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …