Home / Fréttir / Ráðgjafar Pútins sagðir tengjast árásinni á MH17 farþegavélina

Ráðgjafar Pútins sagðir tengjast árásinni á MH17 farþegavélina

Brennandi flak MH17.
Brennandi flak MH17.

Alþjóðleg rannsóknarnefnd fullyrðir að helstu ráðgjafar Vladimirs Pútins Rússlandsforseta hafi átt náin samskipti við aðskilnaðarsinna í Úkraínu, holla Rússum, sem sakaðir eru um morð á 298 manns í farþegaflugvél.

Viðbrögð rússneskra yfirvalda við þessari niðurstöðu sem reist er á ítarlegri rannsókn er að hafna öllum ásökunum um aðild að voðaverkinu 17. júlí 2014 þegar MH17, vél frá Malasíu var grandað þegar hún flaug yfir austurhluta Úkraínu. Alls voru 298 manns um borð í vélinni.

Árum saman hafa hollenskir rannsakendur leitast við að upplýsa hvað gerðist en vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Nú hafa þeir birt nýja útskrift á símtölum sem voru hleruð þegar forystumenn aðskilnaðarsinnanna ræddu v ið menn í innsta hring Pútins á vikunum fyrir árásina sem gerð var með rússneskri skotflaug.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, brást hart og fljótt við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Hún sagði yfirflæði af falsfréttum í heiminum og nú hefði þeim fjölgað um eina. Taldi hún hugsanlegt að upptökurnar væru tilbúningur til að sverta Rússa.

Þeir sem hlustað hafa á upptökurnar segja þær skýrar. Þar er afhjúpað að rúissnesk yfirvöld í Moskvu höfðu mikil áhrif á uppreisnarmennina vinveitta Rússum sem eru ákærðir fyrir að hafa grandað flugvélinni með rússneskri skotflaug.

Þarna má heyra samtöl margra uppreisnarleiðtoga, þar á meðan sjálfskipaðs forsætisráðherra Donetsk-lýðveldisins, Alexanders Borodajs, og sjálfskipaða varnarmálaráðherrans. Igors Girkins. Þeir ræddu við Sergej Aksjonov, sem Kremlverjar skipuðu stjórnanda Krímskaga og Vladislav Surkov, einn af ráðgjöfum Pútins.

Aðskilnaðarsinnarnir segja í að minnsta kosti þremur símtölum að þeir gæti rússneskra hagsmuna og fari að fyrirmælum rússnesku leyniþjónustustofnananna FSB og GRU.

Klukkan var 16.20 að staðartíma17. júlí 2014 þegar rússnesk skotflaug af Buk-gerð grandaði MH17. Buk-skotkerfið hafði verið flutt frá herstöð í Kursk í Rússlandi og skömmu fyrir árásina var því smyglað inn í Úkraínu. Uppreisnarmennirnir sem starfa í skjóli Rússa og Rússar sjálfir neita allri aðild að glæpaverkinu. Í byrjun júlí 2014 tilkynnti foringi í hópi uppreisnarmanna að von væri á liðsauka frá Sergej Sjogju, varnarmálaráðherra Rússa, og menn frá Moskvu tækju yfir stjórnina.

Í júní 2019 komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að skotflaugin sem hitti farþegavélina hafi komið frá 53. sveit í rússnesku flugherstöðinni í Kursk skammt frá landamærum Úkraínu og að henni hefði verið skotið frá yfirráðasvæði undir stjórn vina Rússa.

Rannsakendurnir hafa ekki enn fundið hver það var sem hleypti af skotinu. Í samtölunum sem leyniþjónusta Úkraínu hleraði og hljóðritaði er ekki minnst á MH17. Rannsakendurnir telja að rússnesk stjórnvöld hafi vitað hvað var á seyði og þau hafi þar miklu ráðið. Í byrjun júlí 2014 hafi næstum dagleg símtöl verið milli stjórnenda á aðskilnaðarsvæðinu og ráðamanna í Moskvu.

Nokkrir fyrrverandi liðsmenn í her aðskilnaðarsinna sögðu rannsakendunum að rússnesku leyniþjónustunar hefðu haft hönd í bagga við stjórn aðskilnaðar-lýðveldisins. Eitt vitni sagði leiðtoga aðskilnaðarsinna hafa heimsótt Moskvu reglulega til samráðs við tengiliði sína. Mörg símtöl voru um sérstaka rússneska öryggissíma.

Að mati rannsakendanna bendir allt til náinna tengsla milli forystumanna aðskilnaðar-lýðveldisins og embættismanna í rússnesku ríkisstjórninni og þess vegna vakni spurning um þátt þeirra í að Buk-flaugunum var beitt.

Á liðnu sumri birtu rannsakendurnir ákærur á hendur þremur Rússum og einum Úkraínumanni. Ráðgert er að málaferli hefjist í mars 2020 gegn Rússunum

Igor Girkin, Sergej Dubinskij og Oleg Pulatov og Úkraínumanninum Leonid Kharsjenko.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …