Home / Fréttir / Ráðamenn Svía og Finna árétta enn samstöðu sína í varnarmálum utan NATO

Ráðamenn Svía og Finna árétta enn samstöðu sína í varnarmálum utan NATO

sauli niinist stefan lfven
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands.

 

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, flutti ræðu á utanríkis- og öryggisráðstefnu sem Sauli Niinostö, forseti Finnlands, efndi til á sumarsetri embættis síns sunnudaginn 19. júní. Löfven tók af skarið um að Svíar mundu taka þátt í að verja Finnland yrði á það ráðist en sagði hvorki tímabært að ræða áform um varnarbandalag Svía og Finna né aðild Svía að NATO.

Stefan Löfven var fyrsti erlendi stjórnarleiðtoginn til að taka þátt í ráðstefnunni á sumarsetri forseta Finnlands í Naantali í suðvestur Finnlandi. Niinostö boðaði til fyrstu tveggja daga ráðstefnu af þessu tagi eftir að hann var kjörinn forseti. Þangað stefnir hann til tveggja daga viðræðna áhrifamönnum úr öllum greinum finnsks samfélags. Að þessu sinni var rætt um utanríkis- og öryggismál.

Finnska ríkisútvarpið, YLE, segir að forsetinn og forsætisráðherrann hafi hist á einkafundi sunnudaginn 19. júní og síðan boðað til blaðamannafundar. Þar lýstu þeir báðir áhuga á að efla enn nánara varnarsamstarf milli þjóða sinna.

Löfven sagði aðildarumsókn Svía að NATO ekki innan sjónmáls. „Svíar hafa getað lifað í friði öldum saman og við ætlum að gera það áfram í  að minnsta kosti næstu 200 ár. Við viljum geta séð fyrir hvað gerist í næsta nágrenni okkar. NATO-aðild er ekki tímabær.“

Í nýjasta mati Finna á þróun utanríkis- og öryggismála sem birt var föstudaginn 17. júní segir að Finnar geti ekki útilokað að beitt verði hervaldi. Þegar Niinistö forseti var spurður um þetta mat sagði hann að í því fælist eðlilegt raunsæi. Hann sagðist hins vegar alls ekki sjá neina hættu steðja að Finnum úr austri:

„Öryggi okkar stafar ekki nein staðfest eða skýr ógn af Rússum,“ sagði hann á blaðamannafundinum. Hann velti fyrir sér hvort Finnar verðu ekki of miklum tíma í áhyggjur yfir að kannski vektu þeir reiði hjá Rússum:

„Okkur er tamt að hafa áhyggjur vegna einhvers sem kynni að angra eða vekja björninn. Ég held að þessar áhyggjur okkar séu ef til vill úr hófi, sem forseti hef ég ekki séð Finna gera neitt á hlut Rússa. Þeir segja skoðun sína séu þeir ósammála og það er gott. Eitt er víst, við erum ekki hrædd við að láta í okkur heyra séum við ósammála þeim.“

Heimild: Yle

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …