Home / Fréttir / Ráðamenn danska ríkjasambandsins ráðgast um öryggis- og varnarmál

Ráðamenn danska ríkjasambandsins ráðgast um öryggis- og varnarmál

Frá fundinum í danska forsætisráðuneytinu 7. janúar 2020.
Frá fundinum í danska forsætisráðuneytinu 7. janúar 2020. Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, og Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, hittust á fundi í danska forsætisráðuneytinu þriðjudaginn 7. janúar.

„Þetta var góður og opinskár fundur. Okkur er ljóst að mikilvæg lega lands okkar á norðurskautinu og Norður-Atlantshafi hefur í för með sér æ miðlægara hlutverk í hinni stórpólitísku mynd sem mótast á þessum árum,“ sagði Kim Kielsen að fundinum loknum.

Á fundinum var rætt um brýn viðfangsefni líðandi stundar sem snerta sameiginlega hagsmuni landanna einkum á sviði utanríkismála sagði í tilkynningu að honum loknum.

„Fyrir okkur er mjög mikilvægt að Naalakkersuisut (grænlenska landstjórnin) hafi raunveruleg og afgerandi áhrif á ákvarðanir sem teknar eru innan ríkjasambandsins um málefni Grænlands og norðurskautsins,“ sagði Kim Kielsen.

Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði eftir fundinn:

„Samstarf okkar innan ríkjasambandsins öðlast nýja vídd þegar norðurslóðir og Norður-Atlantshaf draga að sér aukna alþjóðlega athygli. Vegna alþjóðahagsmuna verður við að efla samtalið og leggjum okkur enn frekar fram um að eiga samstarf þvert á Danmörku, Grænland og Færeyjar. Á fundinum í dag þess vegna meðal annars rætt utanríkis- öryggis- og varnarmál.“

Í frétt grænlenska útvarpsins, KNR, um fundinn segir að stjórnmálamenn í Færeyjum og Grænlandi hafi lengi óskað eftir að hafa meiri áhrif á utanríkisstefnuna. Í nóvember hafi Mette Frederiksen sagt að hún væri fús til að veita Færeyingum meira svigrúm í utanríkismálum.

Þá er einnig vitnað til þess að Frederiksen hafi sagt í samtali við KNR skömmu fyrir þingkosningarnar í apríl 2019 sem gerðu hana að forsætisráðherra að hún væri til í að ræða hvort Grænlendingar og Færeyingar ættu sjálfir að ráða meiru um utanríkismál landanna.

Að loknum fundinum 7. janúar 2020 sagði Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja:

„Ríkjasambandið gegnir miklu hlutverki á norðurslóðum. Strategísk lega Færeyja í Norður-Atlantshafi veitir okkur ný tækifæri. Þessu fylgja þó einnig miklar áskoranir og ábyrgð. Við allt þetta verður að sýna mikla aðgát og ræða vel saman til að tryggja að tækifærin verði nýtt eins vel og frekast er kostur.“

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …