Home / Fréttir / Pútin ýtir Finnum og Svíum nær NATO

Pútin ýtir Finnum og Svíum nær NATO

Sænskur hermaður á hraðbáti í sænska skerjagarðinum.

Krafa Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um að ríki nálægt Rússlandi, þar á meðal Finnland og Svíþjóð, haldi sig utan NATO kann að leiða til þess að Finnar og Svíar færist nær aðild að bandalaginu, segir í fréttaskýringu Jyllands-Posten miðvikudaginn 12. janúar.

Umræður hafa mest snúist um tilraunir Rússa til að samþykkt verði að Úkraína verði „aldrei, aldrei nokkru sinni“ aðili að NATO eins og Sergeij Rjabkov, vara-utanríkisráðherra Rússa, orðaði það eftir tæplega átta tíma fund með fulltrúum Bandaríkjastjórnar í Genf mánudaginn 10. janúar.

Krafa Rússa snýr þó ekki aðeins að Úkraínu heldur að því að ekkert nýtt ríki í austurhluta Evrópu gangi í NATO, þar á meðal Finnland og Svíþjóð. Þar hafa þessi afskipti Rússa af ákvörðunum Finna og Svía leitt til allt annarra umræðna en Pútin vildi. Þeim vex fiskur um hrygg sem tala fyrir aðild þjóðanna að NATO.

Magdalena Andersson, nýr forsætisráðherra Svía, ræddi fimmtudaginn 6. janúar málið við Sauli Niinistö, forseta Finnlands. Sama dag ræddi Andersson einnig við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og þakkaði honum samtalið á Twitter með orðum sem túlkuð eru á þann veg að hún vilji enn nánara samstarf við NATO, forsætisráðherrann sagði:

„Þakkir til Jens Stoltenberg fyrir samtalið um mikilvægi þess að halda fast í skipan öryggismála Evrópu og fyrir að dýpka samstarfið milli Svíþjóðar og NATO.“

Á Twitter-síðu sinni áréttaði Jens Stoltenberg:

„Svíþjóð er mikilvægt NATO-samstarfsríki. Við styðjum rétt hverrar þjóðar til að ákveða sjálf eigin öryggisráðstafanir.“

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var í Washington föstudaginn 7. janúar og ræddi hættuna af hótunum Rússa.

Hershöfðinginn Micael Byden, yfirmaður sænska heraflans, sagði við Dagens Nyheter föstudaginn 7. janúar: „Ef hugmyndir Rússa ná fram að ganga hverfa forsendurnar fyrir öryggismálastefnu Svíþjóðar.“

Sænski herinn efnir til æfinga með herjum NATO-þjóða. Á árinu 2020 skuldbatt sænska þingið ríkisstjórnina til að nýta svonefnda NATO-leið, það er að haga skipulagi varnarmála á þann veg að félli að áætlunum NATO. Finnar höfðu áður tekið sambærilega ákvörðun.

.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …