
Atvinnustarfsemi í nyrstu héruðum Rússlands við Norður-Íshaf í samvinnu við Kínverja hefur forgang hjá Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Þetta kom fram á árlegum blaðamannafundi hans í Moskvu. Um 1.400 fjölmiðlamenn sóttu fundinn og stóð hann í 4 klukkustundir fimmtudaginn 14. desember.
Það var blaðamaður frá Komi-lýðveldinu sem spurði forsetann um hver væri afstaða hans til þróunar mála á norðurslóðum. Ekki stóð á svari við því hjá forsetanum sem sagði að stjórnin hefði mótað sérstaka þróunaráætlun fyrir norðurslóðir og þar væri höfuðáhersla lögð á aukna atvinnustarfsemi á svæðinu, þar á meðal vinnslu alls kyns jarðefna.
„Ég hef sagt það áður og vil endurtaka það með því að umorða það sem hinn mikli (Mikhail] Lomonosov sagði einu sinni að „auður Rússlands ykist með útþenslunni í Síberíu“. Nú tímum eykst auður Rússlands með útþenslunni á norðurskautssvæðinu“. Þar væri að finna mestu auðlindir í jörðu.
Nokkrum dögum fyrir blaðamannafundinn sneri Pútín til Moskvu frá Jamal-skaga þar sem hann tók þátt í athöfn þegar formlega var lýst yfir að jarðgasvinnsla væri hafin i nýrri Jamal LNG-vinnslustöð og Sabetta-höfn væri opnuð fyrir skipaumferð. Þarna hefur verið unnið að gerð mestu mannvirkja sögunnar á þessum slóðum.
Á blaðamannafundinn sagði Pútín að á norðurslóðum yrði bæði að gæta öryggis í þágu umhverfisins og á sviði hernaðar.
Hann endurtók sögu sem hann hefur áður sagt um leiðsögumann á Franz Josef Landi sem á að hafa frætt ferðamenn þar um að „.þessar eyjar urðu mjög nýlega hluti Rússlands“ og sem „virtist hafa gleymt að þetta eru í raun rússneskar eyjar“.
Pútin sagði að nú hefðu allir verið minntir á þarna væri allt í lagi og sú staðreynd myndi ekki gleymast. Með þessum orðum minnti hann á að Rússar hefðu sent herafla sinn á svæðið.
Á undanförnum árum hafa Rússar reist öfluga herstöð í eyjaklasanum með nýuppgerðum flugvelli og húsum sem geta hýst allt að 150 hermenn allan ársins hring. Rússnesk yfirvöld segja að herstöðin sé nauðsynleg til að vernda auknar siglingar á svæðinu.
Pútin var spurður um tengslin við Kínverja. Það kom skýrt fram hjá honum að norðurslóðir gegna lykilhlutverki þegar litið væri til samstarfs við Kínverja og benti hann á að þeir hefðu „lýst miklum áhuga á Norðurleiðinni til siglinga“.
Forsetinn sagði: „Ég vona að bráðlega verði mun hagkvæmara en hingað til að flytja varning milli Asíu og Evrópu eftir Norðurleiðinni en eftir öðrum leiðum.“ Hann sagði að Rússar mundu nota allar hugsanlegar leiðir til að hvetja Kínverja til að nýta sér þessa hagkvæmni.
Heimild: Barents Observer.