Home / Fréttir / Pútín vill kalt stríð – Þjóðverjar eiga fullt í fangi með ESB

Pútín vill kalt stríð – Þjóðverjar eiga fullt í fangi með ESB

Walter Russel Mead
Walter Russel Mead

 

Pútín vill kalt stríð segir bandarískir sérfræðingurinn Walter Russell Mead við þýska blaðið Die Welt laugardaginn 27. júní. Andstæðingar Pútíns séu veikburða og Þjóðverjar eigi fullt í fangi með að glíma við Evrópuverkefnið, framtíð ESB, á vettvangi efnahagsmála og stjórnmála.

Jens Wiegmann, utanríkismálaritstjóri Die Welt, ræðir við Walter Russel Mead sem sat ráðstefnu á vegum Böll-stofnunarinnar í Berlín og spyr fyrst hvort það dugi til að halda aftur af Rússum að Bandaríkjastjórn ætli að flytja þungavopn fyrir allt 5.000 bandaríska hermenn til landa í Austur-Evrópu.

Walter Russel Mead : Kæmi til hernaðarátaka í stríði dygði þetta ekki en hins vegar til að árétta pólitíska skuldbindingu er þetta nóg. Það er síðan alltaf unnt að senda hermenn á vettvang. Það má gera síðar, ekkert liggur á.

Die Welt: Margir óttast afturhvarf til kalda stríðsins, eða er það þegar orðið fyrir löngu?

Mead: Það væri draumur Pútíns. Kalt stríð við Bandaríkin. Pútín er þó ekki Stalín og ekki heldur Breshnev. Rússland samtímans er ekki Sovétríkin, það snýst ekki allt um það í bandarískri stjórnarstefnu.

Die Welt: Felst styrkur Pútíns ef til vill í áróðrinum, tilrauninni til að grafa undan vestrænum lýðræðisríkjum?

Mead: Pútín vill að Rússland sé risaveldi en hann neyðist hins vegar til að spara. Hvað er til ráða? Hann getur beitt þrýstingi með gasi og olíu, hann á kjarnorkueldflaugar. Síðan heldur hann úti leyniþjónustu og áróðursdeild – þar er um starfandi net að ræða sem nær til alls heimsins. Miðað við annað hentar þetta tæki vel. Sovétmenn náðu mjög miklum árangri á þessu sviði í kalda stríðinu. Aðferðirnar lærðu Kremlverjar af nasistum og Göbbels, hann er sagður hafa sagt að endurtaki maður lygina nógu oft breytist hún í sannleika.

Die Welt: Nú verður þess vart, ekki síst í Þýskalandi, að haldið er fram sjálfsgagnrýni vegna afstöðu þýsku ríkisstjórnarinnar, ESB og NATO gagnvart Rússum og jafnvel er lýst skilningi á afstöðu Pútíns og innlimun Krímskaga. Hve hættulegur er áróðurinn?

Mead: Hann hafði mikil áhrif í kalda stríðinu, þó ekki úrslitaáhrif. Raunsæi náði þá yfirhöndinni, það má sannarlega segja Þjóðverjum til hróss. Á hinn bóginn er Pútín hættulegri að áliti margra á Vesturlöndum – alls ekki vegna þess að hann sé sterkur heldur fyrst og fremst vegna þess hve andstæðingur hans er veikburða: ESB glímir við stórvandræði; einnig NATO, staðan innan bandalagsins er langt frá því að vera eins og best verður á kosið. Pútín leitar einnig leiða til að auka áhrif sín, til dæmis í Ungverjalandi.

Die Welt: Hvert er hlutverk Þýskalands í heimsmynd Pútíns?

Mead: Ég held að Pútín líti á Þýskalands sem helsta andstæðing sinn í ýmsum deilumálum – til dæmis í Úkraínu-deilunni en einnig vegna Grikklands. Pútin lítur í stórum dráttum á Evrópusambandið sem þýskt viðfangsefni. Hann sér að þýska ríkisstjórnin á fullt í fangi með að glíma við efnahagsleg og stjórnmálaleg verkefni.

[…]

Die Welt: Hver er hlutur Þýskalands í bandarískri utanríkisstefnu?

Mead: Af beggja hálfu ættu menn að gera sér meiri tíma til að ræða saman í alvöru. Í kalda stríðinu lögðu báðir mun harðar að sér við að rækta samband sitt þar sem sameiginleg gildi þeirra voru í hættu. Nú á hið sama við og lífshagsmunir Bandaríkjamanna og Þjóðverja eru í húfi. Stjórnmálamenn og þeir sem móta skoðanir almennings ættu að stofna til ítarlegra. heiðarlegra viðræðna til að stilla strengina saman að nýju.

Die Welt: Það má kannski tala um „endurræst Evróputengsl“?

Mead: (hlær) Já, það væri kannski gáfulegra en endurræsa tengslin við Rússland.

Walter Russell Mead f. 1952 er bandarískur fræðimaður. Hann er James Clarke Chace Professor of Foreign Affairs and Humanities við Bard College og prófessor um utanríkisstefnu Bandaríkjanna við Yale-háskóla. Hann er í ritstjórn tímaritsins The American Interest í hópi fræðimanna sem mynda Hudson Institute.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …