Home / Fréttir / Pútín vill endurreisa alhliða stjórnmálasamskipti við Trump – áfall segir þýski varnarmálaráðherrann

Pútín vill endurreisa alhliða stjórnmálasamskipti við Trump – áfall segir þýski varnarmálaráðherrann

Donald Trump flytur sigurræðu sína.
Donald Trump flytur sigurræðu sína.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum leiði til þess að Rússar séu tilbúnir og fúsir til að taka að nýju upp alhliða stjórnmálasamskipti við Bandaríkjamenn. Hann segir þó að það verði ekki auðvelt.

„Okkur er ljóst að þetta er erfið leið vegna þess hve tengsl Rússlands og Bandaríkjanna hafa því miður versnað,“ sagði Pútín og bætti við að hið slæma ástand væri „ekki okkur að kenna“.

Hann sagðist vona að endurreisa mætti tengsl ríkjanna „á grundvelli jafnréttis, gagnkvæmrar virðingar þar sem tekið er raunverulegt mið af afstöðu hvors aðila“.

Vladimír Pútin sagði þetta miðvikudaginn 9. nóvember þegar fyrir lá að Trumo hafði sigrað Hillary Clinton í bandarísku forsetakosningunum. Þá vann flokkur Trumps, Repúblíkanaflokkurinn, einnig meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.

Í kosningabaráttunni bar Trump lof á forystu Pútíns og sagði hann „sterkan leiðtoga – sterkari en okkar forseti“. Hann dró einnig í efa ásakanir bandarískra njósnastofnana um að Rússar hefðu brotist inn í tölvukerfi Demókrataflokksins og kosningakerfi Hillary Clinton.

Að loknum sigri Trumps er einnig minnt á að Trump hafi gefið til kynna að Bandaríkjamenn mundu ekki lengur grípa til varna fyrir bandamenn sína innan NATO þrátt fyrir aukna ágengni Rússa og liðsafnað þeirra við vestur landamæri sín.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að morgni miðvikudags 9. nóvember að samstarf þjóðanna við Atlantshaf væri reist á gagnkvæmum skuldbindingum. Hann sagði:

„Öflugt NATO er mikilvægt fyrir Evrópu en einnig Bandaríkin. Okkur ber að hafa hugfast að aðeins einu sinni í sögu NATO hefur 5. grein Atlantshafssáttmálans um sameiginlegar varnarskuldbindingar verið virkjuð. Það var eftir 9/11 árásina á Bandaríkin.“

Fréttaritari CBS News fór um Moskvu aðfaranótt miðvikudag 9. nóv. og heyrði fangaðarhróp í hvert sinn tölur um velgengni Trumps bárust. Rússi sagði við fréttaritarann að sigur Trumps væri „ekki aðeins sigur fyrir Bandaríkjamenn sem hafa varið lýðræði sitt gegn frjálshyggju hnattrænu elítunnar – nei, þetta er sigur sem bandaríska þjóðin hefur fært öllum heiminum“.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sendi Donald Trump heillaóskir og sagði: „Þjóðverjar og Bandaríkjamenn eru tengdir sameiginlegum gildum: lýðræði, frelsi, virðingu fyrir réttarríkinu og virðingu fyrir fólki án tillits til uppruna þess, húðlitar, trúar, kyns, kynhneigðar eða stjórnmálaskoðana. Á grunni þessara gilda býð ég framtíðarforseta Bandaríkjanna nána samvinnu.“

Því er spáð að einhver spenna verði í samvinnu stjórnvalda Bandaríkjanna og Þýskalands eftir að Trump kemst til valda. Í kosningabaráttunni komst hann einu sinni svo að orði að útlendingastefna Merkel væri „algjörlega misheppnuð“.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði að sigur Trumps væri „þungt áfall“. Leyen sem er flokkssystir Merkel sagði við sjónvarpsstöðina ARD að morgni miðvikudags 9. nóvember:

„Auðvitað gerum við Evrópubúar okkur grein fyrir því sem aðilar að NATO að Donald Trump mun spyrja að því hvað við leggjum af mörkum til bandalagsins. Við munum einnig spyrja: Hver er afstaða þín til bandalagsins? Mörgum spurningum er ósvarað. Ábyrg og opin Bandaríki eru okkur í hag. Ég er einnig þeirrar skoðunar að Donald Trump átti sig á því að þetta var ekki kosning honum í vil heldur gegn Washington og gegn ráðandi öflum.“

Jafnaðarmaðurinn Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, tók í sama streng og sagði: „Ekkert verður auðveldara en áður, margt verður erfiðaðra. Við vitum ekki hvernig Donald Trump mun stjórna Bandaríkjunum. Við verðum hins vegar að taka niðurstöðunum og við höfum tekið þeim.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …