
Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti miðvikudaginn 13. apríl ræðu á fjarfundi með fulltrúum rússneskra stofnana og fyrirtækja sem vinna að því að nýta auðlindir og siglingaleiðir á norðurslóðum. Meginboðskapur hans var að vestrænar refsiaðgerðir mættu ekki verða til að fresta norðurslóða framkvæmdum.
„Við höfum alla burði og öll tækifæri til að finna önnur úrræði með hraði,“ sagði Rússlandsforseti.
Á norsku vefsíðunni BarentsObserver er útdráttur úr ræðu hans sem birtist á vefsíðu Kremlar. Forsetinn hvatti til þess að „hámarkshraða“ yrði náð við núverandi framkvæmdir og þær sem væru ráðgerðar á norðurslóðum.
Hann sagði að ekki mætti fresta framkvæmdunum, ekki breyta þeim heldur þvert á móti takast á við allar tilraunir sem gerðar væru til að leggja stein í götu þeirra.
Thomas Nilsen, ritstjóri BarentsObserver, minnir á að mikið af rússneskri olíu og gasi auk kola komi frá svæðum norðan heimskautsbaugs. Þá eigi stærstu framkvæmdirnar þar allt undir greiðum siglingum eftir Norðurleiðinni. Undanfarin ár hafi rússnesk stjórnvöld lagt gífurlega mikið undir við vinnslu náttúruauðlinda á norðurslóðum.
Skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu sagði Novatek, jarðgasfyrirtæki í einkaeign, stóreigandi í jarðgasverunum Jamal LNG og Arctic LNG2, að mikil óvissa og erfiðleikar hefðu skapast vegna skorts á fjármagni eftir að vestrænar refsiaðgerðir settu rússneskum bönkum skorður og þar með öllu fjármagni til framkvæmda. Novatek er bjargarlaust án erlends fjármagns og erlendrar tækni. Hugsanlegt er að hætt verði við allar framkvæmdir vegna Arctic LNG2.
Bann við orkusölu til Evrópu leiðir til þess að orkuflutningar til Asíu verða forgangsmál rússneskra stjórnvalda.
Thomas Nilsen minnir á að BarentsObserver hafi sagt frá miklum vandræðum í Murkmansk þar sem járnbrautavagnar og skip með olíu sem á að umskipa til flutnings til Evrópumarkaða eru strönduð í og við borgina. Múrmansk er auk þess ein helsta útflutningshöfn Rússa á kolum. Nú þegar notkun þeirra er bönnuð í Evrópu verða af því gífurleg vandræði í borginni.
Forsetinn sagði að Rússar ættu sjálfir að auka olíu- og gasnotkun samhliða því sem leitað yrði nýrra markaða utan Evrópu. Viðkomandi ráðuneyti og opinberar stofnanir ættu nú að stórefla mannvirkjagerð eins og lagningu járnbrauta, hafnargerð og smíði ísbrjóta.
Hann hvatti til alþjóðasamstarfs við aðra en vestræna aðila og vildi að litið yrði til ríkja fjarri norðurslóðum. Stofna ætti til samstarfs við alla sem hefðu áhuga á því að tengjast núverandi verkefnum og til framtíðar.
„Hér verður nóg að gera fyrir alla,“ sagði forsetinn um fjarfundabúnað úr lokuðum forsetabústað sínum, einangraður fjarri öðrum.