Home / Fréttir / Pútin vil treysta stöðu sína með gervi-þjóðaratkvæðagreiðslu

Pútin vil treysta stöðu sína með gervi-þjóðaratkvæðagreiðslu

Á skiltinu fyrir ofan herbílinn stendur: Í Rússlandi að eilífu frá 27. september.

Gervi-þjóðaratkvæðagreiðsla hófst föstudaginn 23. september í fjórum héruðum í Úkraínu undir hernámsstjórn Rússa. Spurt er hvort íbúar héraðanna vilji að þau verði innlimuð í Rússland. Litið er á ákvörðun Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um atkvæðagreiðsluna sem örvæntingarfulla stigmögnun á stríðinu sem hann hefur háð við Úkraínumenn í sjö mánuði.

Stjórnvöld Úkraínu og Vesturlanda hafna atkvæðagreiðslunni sem ólögmætri. Til hennar sé stofnað undir þrýstingu hernámsstjórna, úrslitin verði kynnt þeim í hag auk þess sem niðurstaðan skuldbindi ekki nein yfirvöld.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Joe Biden Bandaríkjaforseti hafa báðir sakað Rússa um að efna til „gervi-atkvæðagreiðslu“ og Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir niðurstöðuna „án lögmæltra afleiðinga“. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti segir að með atkvæðagreiðslunni reyni Rússar að beina athygli almennings að „hávaða“.

Aðskilnaðarhéruðin Luhansk og Doentsk mynda iðnaðarsvæðið í austurhluta Úkraínu sem kallast einu nafni Donbas. Héraðsyfirvöldin tilkynntu skyndilega fyrir skömmu að gengið yrði til þriggja daga þjóðaratkvæðagreiðslu frá og með föstudeginum 23. september um hvort sameinast ætti Rússlandi. Þá var einnig stofnað til samskonar atkvæðagreiðslu í suðurhluta landsins í Kherson- og Zaporizhzhia-héruðum.

Rússneskir hermenn og aðskilnaðarsinnar hafa næstum allt Luhansk-hérað á valdi sínu en aðeins 60% af Donetsk-héraði.

Fréttaskýrendur segja að skjót innlimun á hernámssvæðunum verði að mati Kremlverja til þess að vonir þeirra rætist um að Úkraínuher láti af gagnsókn sinni til að endurheimta svæðin, viðurkenni rússnesku yfirráðin eða glími við ofurþunga gagnsókn.

Rússar notuðu skyndi-þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga árið 2014 til að réttlæta innlimun sína á skaganum í óþökk stjórnvalda Úkraínu. Af hálfu Vesturlanda og ráðamanna í Kyív er sú atkvæðagreiðsla sögð ólögleg og ómarktæk.

Aðskilnaðarsinnar hafa ráðið yfir stórum hluta Donbas-svæðisins síðan 2014. Í Luhansk og Donetsk voru stofnuð alþýðulýðveldi skömmu eftir innlimun Krímskaga en til þessa hafa Moskvumenn hafnað óskum um að Luhansk og Donetsk verði hlutar Rússlands. Pútin hefur nú skipt um skoðun. Hann „sjálfstæði“ alþýðulýðveldanna og sókn Úkraínumanna gegn þeim sem ástæðu fyrir innrásinni 24. febrúar 2022. Sér bæri skylda til að verja íbúa þeirra. Nú geti hann það ekki nema þau verði hluti Rússlands.

Á fyrstu dögum stríðsins fyrir sjö mánuðum lögðu Rússar undir sig hluta af Suður-Úkraínu í kringum Kherson. Þeir handtóku og pyntuðu hundruð stuðningsmanna stjórnarinnar í Kyív. Aðrir voru fluttir nauðugir til Rússlands eða lögðu á flótta.

Í Kherson- og Zaporizhzhia-héruðum í suðri hafa Rússar lokað fyrir sendingar sjónvarpsstöðva í Úkraínu og hafið rússneskar útsendingar í þeirra stað. Íbúar hafa fengið rússnesk vegabréf, rúblan hefur verið tekin upp sem gjaldmiðill og bílar fengið rússneskar skráningarplötur. Allt miðar þetta að því að innlima svæðin í Rússland.

Andspyrnumenn gegn hernámi Rússa ráðast oft á rússneska leppa sem nú stjórna málum héraðanna. Sveitarstjórnarmenn hafa verið drepnir, kjörstaðir sprengdir í loft upp auk stjórnarbygginga. Þá hafa upplýsingar verið sendar til Úkraínuhers um mikilvæg skotmörk á svæðinu.

 

Heimild. Euronews

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …