Home / Fréttir / Pútin viðurkennir mannfall í áróðursræðu á Rauða torginu

Pútin viðurkennir mannfall í áróðursræðu á Rauða torginu

Vladimir Pútin flytur hátíðarræðu á rússneska sigurdeginum 9. maí 2022.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti réttlætti tilefnislausa innrás Rússa í Úkraínu með þeim orðum að hún væri „til varnar ættjörðinni“ í hátíðarræðu á rússneska sigurdeginum, 9. maí, í Moskvu.

Pútin skipaði heiðurssæti á hersýningu í tilefni dagsins á Rauða torginu þar sem minnst var sigursins yfir Þýskalandi nazista árið 1945. Í ræðu sinni ítrekaði Pútin ásakanir sínar í garð NATO fyrir að ógna Rússum við landamæri þeirra og fullyrti að gripið hefði verið til nauðsynlegra forvarna fyrir Rússland með innrásinni í Úkraínu.

Hann beindi orðum sínum einnig sérstaklega til rússneskra hermanna sem berjast í Donbas-héraði í austurhluta Úkraínu sem Pútin vill „frelsa“ undan stjórnvöldum í Kyív.

Í ræðunni viðurkenndi Pútin að undir högg væri að sækja með þeim orðum að allt Rússland skaðaðist félli einn hermaður í valinn. Hann lofaði að rússnesk stjórnvöld, fyrirtæki og félagslegar stofnanir mundu leggja sig fram um að gæta hags þeirra sem eftir lifðu og huga sérstaklega að börnum látinna. Þetta yrði gert samkvæmt nýjum fyrirmælum sem hann hefði staðfest með undirskrift sinni.

„Það er ávallt heilög skylda að verja ættjörðina þegar örlög hennar eru í húfi,“ sagði forsetinn.

Fyrir ræðu Pútins voru vangaveltur um að hann kynni ef til vill að lýsa formlega yfir stríði gegn Úkraínu. Ræðan tók 11 mínútur og þar var ekkert minnst á framgang Úkraínustríðsins og ekkert sagt um hve lengi yrði barist.

Rússneska hernum hefur ekki enn tekist að leggja að fullu undir sig hafnarborgina Mariupol við Azov-haf. Talið er að um 2.000 úkraínskir hermenn séu þar enn til varnar og hafi búið um sig undir risavöxnu Azovstal stáliðjuverinu.

Hörð viðbrögð Wallace

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlandi, benti strax á hve „fáránlegt“ væri að sjá rússnesku hershöfðingjana á heiðurspallinum umhverfis forsetann í stífpressuðum hátíðarklæðum og ofhlaðna heiðursmerkjum. Þeir væru eindregnir samverkamenn Pútins þegar hann eignaði sér söguleg afrek forfeðranna sem hefðu sigrað fasista.

„Allir atvinnuhermenn ættu að fyrirlíta athæfi rússneska hersins um þessar mundir,“ hann hefði ekki aðeins „gert ólögmæta innrás og framið stríðsglæpi heldur hefðu yfirmenn hans brugðist óbreyttum liðsmönnum sínum á þann hátt að þá ætti að draga fyrir herrétt,“ sagði varnarmálaráðherrann í British National Army Museum, breska herminjasafninu.

„Með innrásinni í Úkraínu endurspegla Pútin og hershöfðingjar hans í innsta hring fasisma og harðstjórnina fyrir 77 árum, þeir endurtaka mistök alræðisstjórnar síðustu aldar,“ sagði Ben Wallace.

Zelenskíj fordæmir Rússa

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði í ávarpi sem hann flutti sunnudaginn 8. maí til að minnast sigursins yfir Þýskalandi nazista að Rússa herjuðu um þessar mundir gegn Úkraínumönnum á sama hátt og nazistar gerðu á sínum tíma.

„Rússar hafa gleymt öllu sem var mikilvægt fyrir sigurvegarana í síðari heimsstyrjöldinni,“ sagði Zelenskíj í sjónvarpsávarpi í tilefni af degi minningar og sátta í Úkraínu. „Ég er þakklátur öllum sem nú leggja sig fram um að verja og bjarga Úkraínu frá nútíma afkomendum þessarar gömlu illsku.“

Sunnudaginn 8. maí tók Zelenskíj einnig þátt í fjarfundi leiðtoga G7-ríkjanna sem fordæmdu „tilefnislausa, óréttlætanlega og ólögmæta hernaðarárás“ Rússa á Úkraínu og tilraunir þeirra „til að hrekja lýðræðilega kjörna fulltrúa Úkraínumanna frá völdum og setja aðra í þeirra stað“.

Leiðtogar G7-landanna minntust einnig loka síðari heimsstyrjaldarinnar með heitstrengingu um að láta Pútin og samverkamenn hans við innrásina, þar á meðal Alexander Lukasjenkó í Hvíta- Rússlandi, sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Innrásin væri „móðgun við Rússland og sögulegar fórnir íbúa landsins“.

Zelenskíj sagði G7-leiðtogunum að 60 almennir borgarar hefðu fallið í sprengjuárás Rússa á skóla í austurhéraðinu Luhansk laugardaginn 7. maí.

„Þau leituðu skjóls undan sprengjuárás í venjulegu skólahúsi sem varð fyrir loftárás Rússa,“ sagði forsetinn.

 

Heimild: RFE/RL

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …