Home / Fréttir / Pútin viðurkennir „alþýðulýðveldi“ aðskilnaðarsinna – rýfur einhliða samning frá 2015

Pútin viðurkennir „alþýðulýðveldi“ aðskilnaðarsinna – rýfur einhliða samning frá 2015

Vladimir Pútin fundar með öryggisráði Rússlands 21. febrúar 2022.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti ákvað síðdegis mánudaginn 21. febrúar að viðurkenna sjálfstæði tveggja „alþýðulýðvelda“ Donetsk og Luhansk sem aðskilnaðarsinnar í Úkraínu stofnuðu fyrir átta árum, segir í frétt frá AFP-fréttastofunni.

Ákvörðunin var tekin eftir skyndifund í öryggisráði Rússlands þar sem háttsettir embættismenn fluttu innblásnar ræður um nauðsyn viðurkenningarinnar.

„Ég hef heyrt skoðanir ykkar. Ákvörðun verður tekin í dag,“ sagði Pútin þegar fundinum lauk. Hann var síðar sýndur í ríkissjónvarpinu.

Volodymyr Zelenskíi, forseti Úkraínu, brást á þann veg við yfirlýsingu Pútins að boða þjóðaröryggisráð lands síns til fundar.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að nú hlypi mörgum kapp í kinn en á hinn bóginn skipti mestu að halda aftur af sér og minnka spennu. Ekki væri um annan kost að ræða.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna varaði við einhliða ákvörðun Rússa og hvatti til þess að menn virtu friðinn.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði að nú mundi hann leggja tillögur um refsiaðgerðir gegn Rússum fyrir ESB-ráðherra.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem taldi sunnudaginn 21. febrúar að hann hefði lagt grunn að fundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta og Vladimir Pútin að hann mundi kalla öryggisráð Frakklands saman til fundar.

Með því að viðurkenna Alþýðulýðveldin Donetsk og Luhansk segja Rússar sig opinberlega frá friðarsamningnum frá 2015 þar sem fullveldi stjórnvalda Úkraínu yfir öllu landinu er staðfest. Viðurkenningin veitir Rússum einnig átyllu til að senda hermenn inn á svæðin sem aðskilnaðarsinnar stjórna. Óljóst er hvort þar með láti Rússar af frekari árásum á Úkraínu.

Pútin gaf yfirlýsingu sína í sama mund og rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að hermenn þess hefðu drepið fimm karla frá Úkraínu og eyðilagt tvö brynvarin farartæki áður en þau ruddust yfir landamærin. Sé þetta rétt var þar um að ræða fyrstu átökin milli herja landanna tveggja síðan Rússar hófu umsátur sitt um Úkraínu að þessu sinni.

Yfirstjórn rússneska suður herstjórnarsvæðisins sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagt var að rússneski herinn og FSB-öryggislögreglumenn hefðu „hindrað að hópur úkraínskra skemmdarverkamanna ryfi rússnesku landamærin“. Þá segjast Rússar einnig hafa tekið einn mann til fanga.

Stjórn hers Úkraínu sagði þetta „falsfrétt“ og engir menn á vegum hersins væru á Rostov-svæðinu þar sem atvikið á að hafa gerst.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði, eftir að Pútin talaði um viðurkenninguna á aðskilnaðarhéruðum, að nú hlypi mörgum kapp í kinn en á hinn bóginn skipti mestu að halda aftur af sér og minnka spennu. Ekki væri um annan kost að ræða. Ráðherrann fer til Washington þriðjudaginn 22. febrúar til viðræðna við bandaríska utanríkisráðherrann.

Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, sagði: „Við erum örugglega vitni að undanfara innrásar.“ Hún taldi þó ekki unnt að útiloka að diplómatískar viðræður og aðgerðir til að fæla Rússa frá árás kynnu að skila árangri. Staðan væri hins vegar mjög hættuleg. „Við hvetjum Pútin til að láta staðar numið,“ sagði hún.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …