Home / Fréttir / Pútin viðurkennir aðild íslamskra öfgamanna að hryðjuverkinu

Pútin viðurkennir aðild íslamskra öfgamanna að hryðjuverkinu

Eurað var skorið af þessum manni við yfirheyrslu í Moskvu og troðið í kokið á honum.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði að kvöldi mánudagsins 25. mars að íslamskir öfgamenn hefðu framið hryðjuverkið í tónleikasal í Moskvu að kvöldi föstudagsins 22. mars.

Þetta er í fyrsta sinn sem Pútin talar um hryðjuverk íslamista í tengslum við ódæðisverkið. Hann hefur á hinn bóginn reynt að tengja það Úkraínumönnum og gerir það enn þótt hann nefni íslamska öfgamenn nú til sögunnar.

Reuters-fréttastofan segir að Pútin fullyrði að árásin sé „liður í árás Kyív-stjórnarinnar á Rússland“.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu verknaðinum á hendur sér strax að kvöldi föstudagsins 22. mars. Þá birtu samtökin einnig myndir og myndskeið af árásarmönnunum og árásinni.

Að minnsta kosti 137 voru myrtir í árásinni.

Rússneska öryggislögreglan hefur handtekið fjóra menn sem liggja undir grun um að hafa unnið hryðjuverkið. Sagt er að þeir séu frá Tadjikistan í Mið-Asíu. Mennirnir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 22. maí. Þeir eiga yfir höfði sér lífstíðardóma. Í Rússlandi gerist það sárasjaldan að ákæruvaldið tapi málum sem hefjast á þann hátt sem hér er lýst.

Rússneska fréttastofan Ria Novosti segir að í hópnum sé faðir og tveir synir hans. Laugardaginn 23. mars sagðist lögreglan hafa handtekið 11 manns í tengslum við málið.

Rússneska öryggislögreglan birti myndskeið á samfélagsmiðlum sem sýnir lögreglumenn pynta þá sem liggja undir grun. Hleypt er rafstuði í kynfæri eins mannanna.

Annað myndskeið sýnir grunaðan mann að nafni Rachabalizod spýta út úr sér eigin eyra sem var troðið ofan í kokið á honum eftir að lögreglumenn beittu hnífi á það. Þegar hann var dreginn fyrir dómara sunnudaginn 24. mars var hann með sárabindi hægra megin á höfðinu þar sem eyrað var skorið af honum.

Vegna árásarinnar hafa heyrst háværar kröfur um að dauðarefsing verði lögfest að nýju en hæun var afnumin í Rússlandi fyrir um 30 árum við aðild Rússa að Evrópuráðinu þar sem þeir eru ekki lengur.

Dmitríj Medvedev, fyrrv. Rússlandsforseti, spurði á Telegram samfélagsmiðlinum: „Á að drepa þá?“ og svaraði: „Það verður að gerast. Og það verður gert.“

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …