Home / Fréttir / Pútín vekur undrun með ummælum um herafla við finnsku landamærin

Pútín vekur undrun með ummælum um herafla við finnsku landamærin

 

Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

Valdimir Pútín Rússlandsforseti var í Finnlandi föstudaginn 1. júlí. Sauli Niinistö Finnlandsforseti bauð honum til sumarhúss embættis síns. Það eitt að Pútín fari til Vesturlanda er fréttnæmt en athyglin hefur þó mest beinst að því sem hann sagði um rússneskan herafla í í nágrenni Finnlands og hvernig stöðu hans yrði breytt ef Finnar færu í NATO.

Pútín sagði á blaðamannafundi að Rússar hefðu fært herafla sinn í 1.500 km fjarlægð frá finnsku landamærunum til að stuðla að friðsamlegum samskiptum þjóðanna, þessi fjarlægð kynni að styttast sæktu Finnar um aðild að NATO.

Í finnskum fjölmiðlum er bent á þá staðreynd Rússar hafi styrkt herafla sinn í nágrenni Finnlands á undanförnum árum. Þá séu aðeins 60 km frá landamærum Finnlands til næstu herstöðvar Rússa þar sem rússneski flotinn hafi flugvélar sínar.

Skömmu eftir að fréttin með ummælum Pútíns var birti greip fréttastofa finnska ríkisútvarpsins, YLE, til þess óvenjulega ráðs að birta leiðréttingu á fréttinni með þeim orðum að túlkur Pútíns hefði ef til vill misskilið orð hans. Að morgni laugardags 2. júlí áréttaði YLE hins vegar upphaflegu fréttina og birti það sem Pútín sagði orðrétt:

„Við höfum fært herafla okkar frá landamærunum milli Finnlands og Rússlands í 1.500 km fjarlægð. Við höfum ekki breytt þessu fram til þessa dags. Málin standa svona. NATO heldur hins vegar áfram að styrkja herafla sinn við Eystrasaltslandamæri okkar. Hvað eigum við að gera?“

YLE segir að meira að segja rússneskir fjölmiðlamenn viti ekki hvernig beri að skilja þessi orð. Væri þetta rétt hjá Pútín mundu Rússar halda uppi vörnum á vestur landamærum sínum gagnvart Finnlandi með herafla sem væri handan Úral-fjalla, næstum í Asíu.

Aðstoðarmenn Pútíns hafa skýrt orð hans á þann veg að hann hafi ekki vísað til 1.500 km fjarlægð heldur 1.500 km breiddargráðu.

Andrei Kolesnikov, blaðamaður handgenginn Pútín, sagði laugardaginn 2. júlí í rússneska blaðinu  Kommersant að hann hefði beðið Sergei Ivanov, skrifstofustjóra Pútíns, að skýra ummæli forsetans. Hann hefði svarað: „Þetta snýst ekki um fjarlægð heldur breiddargráðu.“

Kolesnikov sagði að Ivanov viðurkenndi að ekki lægi allt ljóst fyrir í málinu. Hvaða 1.500 km breiddargráða?

„Við erum ekki með neitt herlið frá Leníngrad héraðinu til Múrmansk,“ segir Kolesnikov að Ivanov hafi svarað.

YLE segir að Rússar haldi í raun úti miklum herafla í nágrenni Finnlands einkum í Leníngrad-héraðinu umhverfis St. Pétursborg og Petrozavodsk. Snemma árs 2015 hafi Rússar einnig aukið hernaðarumsvif sín á norðurslóðum og við Norður-Íshaf. Þeir hafi opnað að nýju herstöð á Kóla-skaga í rússneska bænum Alakurtti í aðeins 60 km fjarlægð frá landamærum Finnlands. Ljóst sé að bæði Rússar og NATO hafi styrkt herafla sinn á Eystrasaltssvæðinu frá því að spennan magnaðist í Úkraínu snemma árs 2014.

Pútín sagði á blaðamannafundinum með finnska forsetanum að Finnar tækju sjálfir um það ákvörðun þegar fram liðu stundir hvort þeir færu í NATO, Rússar mundu virða þá ákvörðun.

Hann glotti hins vegar þegar hann sagði að NATO mundi ekki hika við að berjast til hinsta finnska hermannsins við Rússa yrði finnski herinn hluti af liðsafla bandalagsins. YLE segir að frá þessum ummælum sé ekki skýrt í rússneskum fjölmiðlum þótt þau veki mikla athygli utan Rússlands.

 

Heimild: YLE

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …