
Hafi Rússar viljað að svo virtist sem smáskil væru á milli sín og Bashar al-Assads Sýrlandsforseta ruku þeir honum til varnar eftir að Bandaríkjamenn gerðu stýrflaugaárásina á fimmtudaginn [6. apríl] að fyrirmælum Trumps forseta. Árásin treysti enn nánar en nokkru sinni áður böndin milli ráðamanna í Moskvu og alræmda sýrlenska einræðisherrans.
Á þessum orðum hefst frétt eftir Neil MacFarquar, fréttaritara The New York Times (NYT) í Morkvu, sunnudaginn 9. apríl um viðbrögð Rússa við stýriflaugaárás bandaríska flotans á flugherstöð Sýrlandsstjórnar. Bandaríkjastjórn hefur fordæmt Assad fyrir að beita efnavopnum gegn borgurum eigin lands og segir Rússa að nokkru meðábyrga þar sem þeir hefðu heitið því með samningi árið 2013 að útrýma efnavopnum í Sýrlandi. Rússar afneita því enn og aftur og þrátt fyrir það sem gerst hefur að Sýrlendingar ráði yfir slíkum vopnum.
Vladimír Pútín Rússlandsaforseti tók upp hanskann fyrir Assad og fordæmdi „árás“ Bandaríkjamanna. Hann virðist því hafa kastað fyrir róða hugmyndum um að hann geti bundið enda á átökin í Sýrlandi á sínum forsendum í samvinnu við Trump og stjórn hans.
Neil MacFarquar segir að rússneska ríkisstjórnin gefi sér oft tíma til að bregðast við stórtíðindum í heiminum en að þessu sinni hafi snemma að morgni föstudags 7. apríl verið gefin út tilkynning í Kreml þar sem veist var að Bandaríkjastjórn fyrir árásina á Al Shayrat flugherstöðina til að svara fyrir efnavopnaárás Sýrlandshers.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hét því að efla loftvarnir Sýrlands, sendi freigátu til Sýrlands og aftengdi samning við Bandaríkjamenn um sameiginlegt flugöryggissvæði yfir Sýrlandi.
„Pútín valdi a milli kosta – hann áréttaði að Assad væri bandamaður sinn,“ sagði Alexandr Morozov, sjálfstæður stjórnmálaskýrandi. „Þetta mun enn auka á einangrun Rússa en Pútín gefur sig ekki.“
Bæði Trump forseti og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa sagt að Rússar beri sinn hluta ábyrgðarinnar á þeim hörmungum sem Assad-stjórnin leiddi yfir borgara eigin lands.
„Meginvandi ráðamanna í Moskvu er ekki að bandaríska árásin var gerð heldur að Trump og Tillerson hafa hert ásakanir sínar í garð Sýrlandsstjórnar og Assads,“ sagði Vladimir Frolov, utanríkismálafræðingur og dálkahöfundur fyrir Republic.ru. „Þeir hafa sagt Rússa bera ábyrgð á gerðum Assads og að þeir hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna samningsins um bann við efnavopnum.“
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 9. apríl að ekki væri unnt að finna neina pólitíska lausn í Sýrlandi á meðan Assad væri þar við völd.
Breska ríkisstjórnin stendur fast að baki ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að svara efnavopnaárás Sýrlandsstjórnar af fullri hörku. Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hætti laugardaginn 8. apríl með nokkurra klukkustunda fyrirvara við ferð til Moskvu þar sem hann ætlaði að ræða við Sergei Lavrov utanríkisráðherra sunnudaginn 9. apríl. Breskur utanríkisráðherra hefur ekki farið til Moskvu síðan 2012.
Boris Johnson breytti áformum sínum til að árétta fordæminguna á stuðningi Rússa við Assad. Hann hafði samráð við Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem ætlar til Moskvu síðar í vikunni.
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, skrifar grein í The Sunday Times 9. apríl þar sem hann segir Rússa bera ábyrgð á mannfallinu vegna efnavopnaárásar Sýrlandshers, hann sé í raun „staðgengill“ Rússa í Sýrlandsátökunum.