Home / Fréttir / Pútín stendur ekki á sama um Bill Browder og baráttu hans

Pútín stendur ekki á sama um Bill Browder og baráttu hans

 

Bill Browder.
Bill Browder.

Bókin Eftirlýstur eftir Bill Browder kom út hér á landið árið 2015, sama ár og annars staðar. Hún ber undirtitilinn: Sönn saga úr heimi fjármála um morð og réttlætisbaráttu. Höfundurinn var helsti erlendi fjárfestir í Rússlandi fram til ársins 2005. Þá var honum bannað að koma til landsins eftir að hann ljóstraði upp um víðtæka spillingu. Árið 2009 var Sergej Magnítskíj, lögfræðingur hans, myrtur í haldi rússnesku lögreglunnar. Síðan hefur Bowder skipulagt alþjóðlega baráttu gegn mannréttindabrotum í Rússlandi. Kom Browde hingað til lands í boði Almenna bókafélagsins í tengslum við útgáfu bókar sinnar og hvatti meðal annars til þess að íslensk stjórmvöld létu ekki sitt eftir liggja í þessari baráttu.

Bowder hefur lýst sjálfum sér sem Putin’s No 1 enemy – höfuðandstæðingi Pútíns. Vladimír Pútín Rússlandsforseti ýtti undir réttmæti þessarar fullyrðingar með því að beina spjótum sínum sérstaklega að Bowder á blaðamannafundi sínum með Donald Trump í Helsinki mánudaginn 16. júlí.

Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum, hefur ákært 12 rússneskara njósnara og sakað þá um ólögleg afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Á Helsinki-blaðamannafundinum nefndi Pútín að Mueller gæti farið þess á leit við rússneskar réttarvörslustofnanir að þær yfirheyrðu þá sem liggja undir grun. Samningur væri í gildi frá 1999 um gagnkvæma réttaraðstoð.

Pútín setti þó skilyrði: Rússar mundu vænta þess að Bandaríkjamenn gerðu þeim þann greiða að vinna með þeim við yfirheyrslur á fólki „sem hafa á einn eða anna hátt komið að lögbrotum á yfirráðasvæði Rússa“.

Í þessu samhengi nefndi Pútín Bill Browder til sögunnar og sjóð hans Hermitage Capital. Rússar teldu að Browder og félagar hefðu hagnast ólöglega í Rússlandi um 1,5 milljarða dollara. Þeir hefðu hvorki greitt skatta í Rússlandi né Bandaríkjunum en þeir hefðu flutt þetta fé til Bandaríkjanna og lagt kosningasjóði Hillary Clinton til 400 milljónir dollara.

Browder brást við samstundis á vefsíðu Time og sagði Pútín nefna sig hvað eftir annað sem sýndi að honum stæði alls ekki á sama um baráttu sína.

Browder beitti sér árið 2012 fyrir að samþykkt voru svonefnd Magnítskíj-lög í Bandaríkjunum sem segja að þeim skuli refsað utan Rússlands sem komu að morðinu á Magnítskíj. Pútín er mikið í mun að hnekkja þessum lögum, því að þau ná til náinna samstarfsmanna hans.

Lögin njóta nú fulltingis Breta, Kanadamanna, Eystrasaltsþjóðanna og Gíbraltar. Auk þess er til athugunar í átta löndum hvort eigi að samþykkja þau: Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Damörku, Ástralíu, Suður-Afríku og Úkraínu.

Sergej Magnítskíj var drepinn vegna þess að hann hafði afhjúpað stuld innan rússneska stjórnkerfisins á 230 milljón dollurum. Browder segir að tekist hafi að rekja feril þessa fjár út úr Rússlandi og nú hafi tugir milljóna dollara verið frystir í ýmsum löndum. Rannsóknir vegna þessa teygi sig víðar. Fjölmargir á æðstu stöðum í Rússlandi sjái fram á að fé þeirra verði gert upptækt og séu til þess búnir að láta myrða þá sem svipti þá þessum fjármunum.

Browder segir að nýjasta ásökun Pútíns um að hann hafi gefið 400 milljónir dollara í kosningasjóð Hillary Clinton sé út í bláinn. Hann hafi aldrei stutt framboð hennar eða annarra frambjóðenda. Áður hafi Rússar sakað sig um að vera raðmorðingja, að vera útsendara CIA/MI6 til að grafa undan rússnesku ríkisstjórninni og að stela 4,8 milljörðum dollara sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlaði rússneskum stjórnvöldum á tíunda áratugnum. „Þessir gaurar hafa illilega farið á taugum og eru farnir að gera mistök,“ segir Bowder.

Mestu mistök við tilboð Pútíns á blaðamannafundinum um að skipta á rannsóknarheimildum vegna rússnesku útsendaranna 12 annars vegar og Browder hins vegar segir Browder hafa verið að Pútín fór ríkjavillt. Hann hafi að vísu fæðst í Bandaríkjunum en hafi flutt til Bretlands fyrir 29 árum og sé breskur ríkisborgari. Vilji Pútín ná til sín ætti hann að ræða við Theresu May sem kynni að vilja eiga við hann orð um taugaeitrið sem rússneskir útsendarar hefðu dreift um Salisbury á Englandi.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …