Home / Fréttir / Pútín staðfestir hörkulegri þjóðaröryggisstefnu

Pútín staðfestir hörkulegri þjóðaröryggisstefnu

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur staðfest nýja þjóðaröryggisstefnu Rússlands þar sem Bandaríkjamenn eru sakaðir um að reyna að „þrengja að“ Rússum með því að beita „stjórnmálalegum, efnahagslegum, hernaðarlegum og miðlunarlegum þrýstingi“, ráðamönnum í Washington er einnig kennt um stríðið í Úkraínu.

Um er að ræða 40 blaðsíðna stefnuskjal sem Pútín staðfesti fimmtudaginn 31. desember og var það birt samdægurs. Við lestur skjalsins kemur í ljós mikil og neikvæð breyting á afstöðunni til Vesturlanda sé tekið mið af sambærilegu skjali sem var staðfest í maí 2009 um svipað leyti og Barack Obama Bandaríkjaforseti sagðist vilja „endurræsa“ samskiptin við Rússa.

Í eldra skjalinu var aðeins minnst þrisvar sinnum á Bandaríkin og gagnrýni á Vesturlönd var að mestu bundin við andstöðu við eldflaugavarnarkerfi í Evrópu og það sem Rússar töldu vaxandi átroðning NATO nálægt rússnesku landamærunum.

Í nýja skjalinu eru vestrænir ráðamenn sakaðir um að reyna að ýta undir spennu á Evró-Asíu-svæðinu til að skaða „þjóðarhagsmuni“ Rússa. Til marks um það er nefnt að bandamaður Rússa, Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu, hafi verið hrakinn úr embætti í febrúar 2014. Bandaríkjastjórn hefur hafnað öllum ásökunum í þessa veru.

Í skjalinu, sem birt var á vefsíðu forsetaembættisins í Kreml, segir: „Stuðningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins við brot á stjórnarskrá Úkraínu með því að fella ríkisstjórn landsins hefur leitt til klofnings innan samfélagsins í Úkraínu og hernaðarátaka.“

Janúkóvitsj flýði til Rússlands eftir mótmælaaðgerðir gegn stjórn hans í upphafi árs 2014. Í mars 2014 lögðu Rússar Krímskaga undir sig og studdu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Rúmlega 9.000 manns hafa fallið í átökum á þessum slóðum frá apríl 2014 að mati  starfsmanna Sameinuðu þjóðanna.

Ríkisstjórnin í Kænugarði, Bandaríkjastjórn, Evrópusambandið og NATO saka Rússa um að styðja aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu með fjármagni, vopnum og mannafla. Kremlverjar hafna þessum ásökunum þrátt fyrir að margt bendi til þess að þær eigi við rök að styðjast.

Sérfæðingar benda á að í nýju rússnesku þjóðaröryggisstefnunni sé tónninn svipaður og nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna með Barack Obama kynnti í febrúar 2014.

Í bandaríska skjalinu er Rússum lýst sem yfirgangsmönnum í eigin heimshluta sem ógni alþjóðlegum stöðugleika. Tónninn í þessu bandaríska skjali er allur annar en í sambærilegu skjali frá árinu 2010 þar sem lögð var áhersla á stöðug, efnisrík, fjölþætt samskipti við Rússa með gagnkvæma hagsmuni að leiðarljósi.

Í júlí 2015 birti bandaríska varnarmálaráðuneytið uppfærða hernaðarstefnu Bandaríkjanna sem hafði verið óbreytt síðan 2011. Í nýju stefnunni segir að ráðamenn Rússa hafi oft sýnt að þeir virði ekki fullveldi nágranna sinna og hiki ekki við að beita afli til að ná markmiðum sínum. Með þessum hætti grafi Rússar undan svæðisbundnu öryggi beint og óbeint.

Skömmu eftir að varnarmálaráðuneytið birti þessa stefnu fól Pútín eigin öryggisráði að uppfæra þjóðaröryggisstefnu Rússlands.

Í þessari samantekt er stuðst við grein eftir  Carl Schreck hjá Radio Free Europe Radio Liberty.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …