Home / Fréttir / Pútin spurði Bill Clinton hvort Rússar gætu gengið í NATO

Pútin spurði Bill Clinton hvort Rússar gætu gengið í NATO

Bill Clinton og Vladimir Pútin.
Bill Clinton og Vladimir Pútin.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir hann hafi einu sinni spurt Bill Clinton, þáv. Bandaríkjaforseta, hvort Rússar gætu gengið í NATO og Clinton hefði svarað að hann hefði „ekkert á móti því“.

Pútín lét þessi orð falla í röð samtala við bandaríska kvikmyndaleikstjórann Oliver Stone sem sýnd verða síðar í þessum mánuði á bandarísku sjónvarpsstöðinni Showtime.

Um er að ræða fjögurra þátta röð og hafa brot úr henni verið birt á netinu undanfarna daga þar á meðal eitt sem Politico náði þar sem Pútin ræðir um NATO. Útþensla bandalagsins í austur eftir fall Sovétríkjanna hefur lengi valdið reiði í Moskvu.

Pútin ræðir við Stone í rússnesku forsetaflugvélinni þegar hann rifjar upp einn af lokafundum sínum með Clinton sem lét af embætti í janúar 2001.

„Á fundinum sagði ég: „Við mundum skoða þann kost að Rússar kynnu að ganga í NATO,“ segir Pútín. „Clinton svaraði: „Ég hef ekkert á móti því.“ Öll bandaríska sendinefndin varð þó mjög taugaveikluð.“

Þegar breski sjónvarpsmaðurinn blaðamaðurinn David Frost ræddi við Pútín í mars 2000 spurði hann hvort „Rússar myndu hugsanlega ganga í NATO“.

Pútin var þá starfandi forseti Rússlands og skömmu síðar var hann kjörinn í embættið. Hann svaraði: „Af hverju ekki?“

Rússar hafa hvað eftir annað sakað NATO um að skapa spennu með útþenslu í átt til landamæra sinna.

Viðtalsþættirnir undir heitinu The Putin Interviews verða frumsýndir 12. júní. Þar segist Pútín ekki sammála ákvörðun Edwards Snowdens, fyrrverandi verktaka hjá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, að leka miklu af trúnaðargögnum bandarískra stjórnvalda.

Hann segir hins vegar að Snowden sem fékk hæli í Rússlandi sé „ekki svikari“ og hann hafi „ekki gefið neinar upplýsingar til annars lands sem hafi valdið þjóð hans skaða“.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …