Home / Fréttir / Pútin skellir enn á ný allri skuld á Vesturlönd og ný-nazista í Kýiv

Pútin skellir enn á ný allri skuld á Vesturlönd og ný-nazista í Kýiv

Vladimir Pútin flytur stefnuræðu sina 21. febrúar 2023.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti endurtók í stefnuræðu sinni þriðjudaginn 21. febrúar gamalkunnar ásakanir í garð Vesturlanda til að réttlæta innrás rússneska hersins í Úkraínu fyrir tæpu ári. Hann sagði að tilvist Rússlands væri nú ógnað vegna stuðning vestursins við stjórnvöld í Kyív.

Pútin talaði í tæpar tvær klukkustundir yfir þéttsetnum sal ráðherra, þingmanna og hermanna auk fulltrúa ungra Rússa og annarra hópa. Ræðunni var sjónvarpað í Rússlandi og um heim allan í alþjóðlegum fréttastöðvum eins og BBC með samtímis túlkun á ensku.

Pútin sýndi engin svipbrigði við flutning ræðunnar. Hann stóð einn á risastóru sviði með rússneska skjaldarmerkið í bakgrunni og fánaborg til beggja hliða. Áheyrendur voru einnig svipbrigðalausir, lófatak bar vott um skyldurækni, einstöku sinnum risu fundarmenn á fætur til að hylla forsetann án þess að raunveruleg hrifning einkenndi viðbrögðin. Sjónvarpsvélum var mikið beint að þeim sem sátu prúðbúnir í salnum.

Í ræðunni sagðist Pútin hafa reynt að komast hjá stríði en „að baki“ Rússum hefði „allt annars konar ráðagerðir verið í bígerð“. Pútin vék ekki einu orði að því í ræðu sinni hvernig rússneska hernum hefði vegnað á einu ári í Úkraínu.

Bandaríkjastjórn benti tafarlaust á „fáránleikann“ í málflutningi Pútins enginn væri „að ráðast á Rússa“.

Pútin endurtók ásakanir sínar um að „stjórn ný-nazista“ væri við völd í Úkraínu og Rússar mundu berjast þar til „við ljúkum verkefnunum sem við okkur blasa“.

Vegna þessara ásakana sagði Mykhajlo Podoljak, ráðgjafi Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta: „Pútin afhjúpaði sjálfan sig opinberlega sem úti á þekju og ruglaðan.“

„Hann áréttaði að [Rússar] eru í úlfakreppu, ráði ekki yfir neinum góðum lausnum og eygi engar. Vegna þess að alls staðar séu „nazistar, Marsbúar og samsæriskenningar,“ sagði Podoljak á Twitter.

Upphaflega stóð til að Pútin flytti stefnuræðu sína í desember en þá var henni frestað vegna endurtekinna hrakfara rússneska hersins í Úkraínu. Nú er hún flutt daginn eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti heimsótti Kyív til að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og slá á þann málflutning Rússa að stuðningur við vestursins við Úkraínu minnki.

Margir sérfræðingar segja að Pútin hafi vonað að í ræðu sinni gæti hann skýrt rússnesku þjóðinni frá miklum árangri á vígvellinum og hrósað sigri. Staðan er hins vegar sú að sókn Rússa virðist hafa stöðvast í austurhluta Úkraínu, skammt frá bænum Bakhmut.

„Það eru þeir sem hófu stríðið. Við beitum valdi til að binda enda á það,“ sagði forsetinn.

Hann lýsti yfir að Rússar segðu sig frá tvíhliða samningi sínum við Bandaríkjamenn frá árinu 2002 um takmörkun á fjölda langdrægra kjarnavopna. Áður hafði Bandaríkjastjórn sagt að samningurinn væri í raun marklaus vegna brota Rússa á honum.

Ef á þyrfti að halda myndu Rússar efna til tilrauna með kjarnavopn yrðu Bandaríkjamenn fyrstir til að gera slíkar tilraunir. Hann útilokaði að Rússar gripu til kjarnavopna að fyrra bragði.

Pútin fullyrti að Rússar ættu ekki í stríði við íbúa Úkraínu heldur við „ríkisstjórn þeirra sem heldur þeim í gíslingu“.

Hann sagði að rússneska þjóðarbúið hefði staðið af sér vestrænar efnahagsþvinganir.

Pútin bar lof á rússneska hermenn og hét því að stofna sjóð til stuðnings skyldmennum þeirra.

Hann varaði Vesturlönd við að veita Úkraínustjórn meiri hernaðarlega aðstoð, með því kölluðu þau aðeins á hernaðarlegt andsvar frá Moskvu.

Í ræðunni gerði Pútin lítið úr „spilltum vestrænum gildum“ sem birtust meðal annars í hjúskap samkynhneigðra. Á Vesturlöndum teldu menn „barnagirnd“ eðlilega háttsemi. Hann vék einnig að ensku kirkjunni og ráðagerðum þar um að gera helgisiði kynlausa og sagði: „Guð minn, fyrirgefðu þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …