Home / Fréttir / Pútín skammast í garð Tyrkja – Erdoğan segir Pútín gefa eftir vegna Sýrlands

Pútín skammast í garð Tyrkja – Erdoğan segir Pútín gefa eftir vegna Sýrlands

Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti.

Í The Moscow Times birtist mánudaginn 3. ágúst frétt um að Vladmir Pútín Rússlandsforseti hefði farið á svig við hefðbundnar diplómatískar reglur og kallað sjálfur á Ümit Yardim, sendiherra Tyrklands í Moskvu, á sinn fund og tilkynnt honum að rússneska ríkisstjórnin kynni tafarlaust að slíta stjórnmálasambandi við Tyrkland nema Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti hætti að styðja hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið í Sýrlandi þar sem finna má síðustu flotastöð Rússa við Miðjarðarhaf.

Í blaðinu segir að rússneski forsetinn hafi farið mörgum og hörðum orðum um utanríkisstefnu Tyrklands og ill áhrif Tyrkja í Sýrlandi, Írak og Jemen með stuðningi þeirra við al-Kaída hryðjuverkamenn, skjólstæðinga Sádí-Araba. Að lokum hafi komið til harðra orðaskipta milli forsetans og sendiherrans.

Í gögnum um fundinn sem lekið var til The Moscow Times segir að fundur forsetans og sendiherrans hafi mótast af gagnkvæmri fyrirlitningu þeirra tveggja. Yardim sendiherra mótmælti öllum ásökunum Rússa og sagði þá bera sök á grimmu og langvinnu borgarastríði í Sýrlandi. „..Segðu þá einræðis-forsetanum þínum að hann geti farið til fjandans með IR-hryðjuverkamönnunum sínum og ég skal ekki gera Sýrland að öðru en „stóru Stalíngrad“ af því að Erdoğan og Sádarnir, bandamenn hans, eru ekki síður grimmir en Adolf Hitler,“ á Vladimír Pútín að hafa sagt á tveggja tíma trúnaðarfundinum með tyrkneska sendiherranum.

Hann bætti við háðungarorðum um hræsni Erdoğans sem talaði um lýðræði og úthrópaði valdatöku hersins í Egyptalandi en styddi á sama tíma hryðjuverkamenn sem reyndu að bola Sýrlandsforseta frá völdum! Hann sagði að rússneska ríkisstjórnin mundi ekki láta af stuðningi við lögmæta ríkisstjórn Sýrlands og mundi í samvinnu við bandamenn sína, það er Kínverja og Írana, leita að pólitískri lausn á átökunum innan Sýrlands.

Sama dag og þessi frétt birtist í The Moscow Times sögðu fjölmiðlar í Tyrklandi frá því að Recep Tayyip Erdoğan forseti teldi Pútín vera að gefast upp á stuðningi sínum við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Hann mundi ekki styðja hann þar til yfir lyki.

Tyrklandsforseti sagði þetta við blaðamenn sem flugu með honum til Tyrklands úr opinberri heimsókn til Asíulanda. Vitnaði forsetinn í samtöl og símtöl við Pútín máli sínu til stuðnings.

Forsetar Tyrklands og Rússlands hittust síðast í Baku, höfuðborg Azerbaijdsan, á Evrópuleikunum hinn 13. júní. Sagt er að þá hafi þeir samið um samvinnu í orkumálum, þar á meðal nýja neðansjávar-leiðslu í Svartahafi.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …