Home / Fréttir / Pútín selur eigin hugaróra

Pútín selur eigin hugaróra

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín

Í The New York Times birtist eftirfarandi leiðari mánudaginn 22. júní:

Valdimír Pútín Rússlandsforseti hvikar ekki frá furðusögunni sem hann hratt af stað til að gera sem minnst úr eigin hlut í Úkraínu-deilunni. Í henni felst að allri skuld er skellt á Vesturlönd og þau sökuð um að ýta undir nýtt kalt stríð auk þess sem áréttað er að alþjóðlegar refsiaðgerðir hafi ekki leikið hnignandi efnahag þjóðar hans illa.

Hann endurtók þennan boðskap enn einu sinni á föstudaginn [19. júní] á ráðstefnu um viðskiptamál sem ætlað var að ala á þessum hugarórum. Forstjórar að minnsta kosti 24 fyrirtækja á Vesturlöndum sóttu ráðstefnuna, sumir þeirra sátu hana þrátt fyrir að ríkisstjórnir þeirra hefðu hvatt til annars.

Þrátt fyrir hæfileka Pútíns til að nota erlenda forstjóra sem leikmuni skín frekar af honum örvænting en öryggi þegar hann segist viss um að hafa betur í glímunni við Vesturlönd.

Fari svo sem horfir að utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna samþykki á fundi sínum í Lúxemborg nú í vikunni að framlengja refsiaðgerðirnar gegn Rússum verður það mikið áfall fyrir Pútín. Hann hefur lagt sig fram um að kljúfa Atlantshafsbandalagið allar götur síðan Rússar innlimuðu Krím árið 2014 og knúðu NATO og ESB til gagnaðgera, sumir telja að raunverulegt markmið hans sé að eyðileggja bandalagið.

Vissulega er ágreiningur meðal Evrópuríkja um hve langt skuli ganga við að einangra Rússa sem ráða yfir miklum olíu- og gasbirgðum, til þessa hefur þó yfirgangur Pútíns tryggt samstöðu ríkjanna þegar hennar er nauðsyn. Fyrir utan að framlengja refsiaðgerðirnar hafa bandalagsríkin undirbúið frekari þvinganir sem gripið yrði til ef aðskilnaðarsinnar hollir Rússum leggja undir sig meira af Úkraínu.

Þá tóku Belgar og Frakkar í síðustu viku til við upptöku rússneskra eigna í löndum sínum í samræmi við niðurstöðu alþjóðlegs gerðardóms á árinu 2014 um að rússneska ríkinu beri að greiða hluthöfum í Yukos-olíufélaginu 50 milljarða dollara eftir að rússneskir embættismenn neyddu það til gjaldþrots.

Þótt Pútín héldi því fram á föstudaginn að Rússar hefðu fundið „innri kraft“ til að þola þvinganir og lækkun olíuverðs hefur hægt á fjárfestingum, fjármagn hefur flúið land og samdráttur orðið í efnahagslífinu. Viðskiptaráðstefnan sjálf var raunar aðeins svipur hjá sjón. Annað árið í röð kusu forstjórar margra vestrænna fyrirtækja að láta ekki sjá sig.

Eitt af því óttalegasta við deiluna hefur verið vilji Pútíns til að veifa kjarnorkuvopnum. Yfirlýsing hans á þriðjudaginn [16. júní] um að 40 nýjar langdrægar kjarnorkuflaugar bættust við vopnabúr Rússa kom ekki á óvart. Bandaríkjamenn og Rússar verja báðir milljörðum dollara til að endurnýja vopn sín. Tilkynningin er hins vegar til þess fallin að skapa frekari ótta meða NATO-þjóða í nágrenni Rússlands og þetta óvarlega tal getur grafið undan áralöngum tilraunum til að minnka spennu vegna kjarnorkuvopna og hættu á átökum.

Stjórnvöld Bandaríkjanna og Evrópuríkja hafa almennt farið varlega í viðbrögðum sínum vegna deilunnar. Þau verða áfram að ganga fram af varúð og einbeita sér að diplómatískri lausn með það á hreinu að átakaferlinu ljúki dragi Pútín liðsafla sinn og hergögn frá Úkraínu og gefi aðskilnaðarsinnum sem njóta stuðnings Rússa fyrirmæli um að virða Minsk-vopnahléssamkomulagið sem báðir aðilar hafa hvað eftir annað brotið.

Vegna yfirgangs Pútíns sem birtist meðal annars í sendingu hermanna og vopna til Kaliningrad, rússnesks landsvæðis milli NATO-ríkjanna Litháens og Póllands, hafa bandalagsríkin sjálf gripið til hernaðarlegra ráðstafana. Fyrir nokkrum mánuðum samþykkti NATO að koma á fót hraðliði sem sent yrði á vettvang til varnar bandalagsríki í neyð. Þá hafa vopnageymslur í framvarða-ríkjum verið fylltar, herlið er sent þangað til skammrar dvalar í senn og efnt til æfinga. Einnig er rætt um að senda skriðdreka og önnur þungavopn til Eystrasaltsríkja og annarra ríka í austurhluta Evrópu.

Sýni Pútín ekki gætni kann hann að standa frammi fyrir því sem hann ætlaði að varast – að NATO hafi komið sér enn betur fyrir við landamæri Rússlands – ekki vegna þess að bandalagið vildi stíga skref í þessa átt heldur vegna þess að það átti ekki annarra kosta völ vegna framgöngu Rússa. Það þjónar hvorki hagsmunum Rússlands né Vesturlanda.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …