Vladimir Pútin Rússlandsforseti átti sjónvarpsfund með öryggisráði sínu fimmtudaginn 3. mars og sagði að bardaginn við „ný-nazista“ í Úkraínu gengi „samkvæmt áætlun“. Fréttaskýrendur telja að með orðum sínum vilji forsetinn slá á þá skoðun að andspyrna Úkraínumanna raski upphaflegri árásar-áætlun Rússa.
Á vígvellinum hefur rússneski herinn aukið sókn sína á hafnarborgina Mariupol við Azov-haf við suðurlandamæri Úkraínu og á Kharkiv, aðra stærstu borg Úkraínu. Rússar hafa borgina Kherson á valdi sínu.
Atburðir fimmtudaginn 3. mars:
- Rússar og Úkraínumenn hittust í annað skipti til viðræðna í Hvíta-Rússlandi í því skyni að binda enda á stríðsátökin.
- Eftir 90 mínútna símtal við Pútin telur Emmanuel Macron Frakklandsforseti að „ástandið versni enn“ þar sem Rússlandsforseti virðist staðráðinn í að leggja undir sig „allt“ landið að sögn aðstoðarmanns Macrons.
- Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti lofaði þjóð sinni að gert yrði við allt tjón af völdum rússneska hersins og Moskvustjórn mundi greiða kostnaðinn.
- Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði á fundi með erlendum blaðamönnum að hann teldi suma erlenda leiðtoga búa sig undir stríð við Rússa en Rússlandsstjórn mundi halda áfram hernaðaraðgerðum sínum í Úkraínu þar til „yfir lyki“.
- Ein milljón manna hefur flúið Úkraínu á vikunni sem liðin er síðan Rússar hófu innrás sína. Af hálfu Sameinuðu þjóðanna er bent á að þetta sé mesti skyndiflótti fólks á þessari öld.
- Alþjóðanefnd ólympíuleika fatlaðra tilkynnti að keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fengju ekki að taka þátt í vetrarleikunum í Peking að þessu sinni. Miðvikudaginn 2. mars hafði nefndin heimilað liðum landanna þátttöku sem hlutlausum þar sem „íþróttamenn væru ekki árásaraðilinn“.
- Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að 498 rússneskir hermenn hefðu fallið í stríðinu í Úkraínu og 1.597 særst. Fulltrúar hers Úkraínu segja að mannfall Rússa sé enn meira: 7.000 hafi fallið og mörg hundruð teknir til fanga.
- Mannréttindaskrifstofa SÞ segir að 227 almennir borgarar hafi fallið og 525 særst á dögunum 24. febrúar til 1. mars. Þetta væru staðfestar tölur en rauntölurnar væru „töluvert hærri“.
Heimild: France 24