Home / Fréttir / Pútin segir Rússa „auðvitað ekki“ vilja stríð

Pútin segir Rússa „auðvitað ekki“ vilja stríð

Vladimir Pútin og Olaf Scholz ræða saman í Moskvu 15. febrúar 2022.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði á blaðamannafundi þriðjudaginn 15. febrúar að „auðvitað“ vildu Rússar ekki stríð í Evrópu. Á hinn bóginn yrði að finnast efnisleg niðurstaða vegna tillagna stjórnar sinnar um öryggismál.

Þegar Pútin var spurður um líkur á stríði svaraði hann: „Viljum við það eða ekki? Auðvitað ekki. Einmitt þess vegna leggjum við fram tillögur um viðræðuferli.“

Hann lagði jafnframt áherslu að finna tafarlaust lausn á deilunni um NATO-aðild Úkraínu.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari hitti Vladimir Pútinn 15. febrúar í Moskvu. Eftir fundinn sagði kanslarinn að hann teldi nokkru miða í átt til viðræðna um lausn á deilum vegna umsáturs Rússa um Úkraínu. Hann sagði þess virði að halda viðræðuferli lifandi og leita að lausn þrátt ýmis ágreiningsmál.

Kanslarinn gaf til kynna að Þjóðverjar væru til þess búnir að leggja Nord Stream 2 gasleiðsluna til hliðar réðust Rússar inn í Úkraínu.

„Við vitum svo sannarlega hvað þarf að gera [komi til innrásar],“ sagði Scholz. „Mér finnst að allir aðrir viti hvað skuli gert. Hvað gasleiðsluna varðar vita allir hvað er að gerast.“

Féttaskýrendur segja að kanslarinn hafi ekki áður kveðið svo skýrt að orði um gasleiðsluna sem Bandaríkjastjórn vill að verði afskrifuð komi til innrásar rússneska hersins í Úkraínu.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að gasleiðslan verði ekki opnuð hefji Rússar innrás. Þau boð berast úr þýsku stjórnarherbúðunum að Scholz sé einnig á þessari skoðun.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði að það mætti greina merki um „diplómatíska leið“ út úr umsátrinu um Úkraínu en það bærust „misvísandi skilaboð“ frá Rússlandi.

Njósnastofnanir hefðu „í dag miðlað upplýsingu sem ekki væru uppörvandi“. Unnið væri að því að reisa hersjúkrahús í Hvíta-Rússlandi skammt frá landamærum Úkraínu. Það mætti „túlka sem undirbúning undir innrás,“ sagði forsætisráðherrann. Enn væru að minnsta kosti 130.000 rússneskir hermenn við landamæri Úkraínu.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, fagnaði fréttum um að rússneskum hermönnum fækkaði í nágrenni Úkraínu. „Orð eru góð. Við bíðum eftir aðgerðum. Verði gripið til aðgerða verður þetta enn betra,“ sagði utanríkisráðherrann.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …