Home / Fréttir / Pútin segir eflingu NATO-innviða í Finnlandi og Svíþjóð kalla á andsvar – ekki sjálfa NATO-aðildina

Pútin segir eflingu NATO-innviða í Finnlandi og Svíþjóð kalla á andsvar – ekki sjálfa NATO-aðildina

 

Frá fundinum í Kremlarhöll 16. maí 2022 þar sem Pútin flutti boðskapinn vegna aðildar Finna og Svía að NATO.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði mánudaginn 16. maí að Rússar mundu grípa til andsvars tæki NATO til við að hlaða undir hernaðarlega innviði Svía og Finna sem ákveðið hafa að sækja um aðild að bandalaginu.

Pútin hefur hvað eftir annað nefnt stækkun NATO austur á bóginn í áttina að landamærum Rússlands sem ástæðuna fyrir stríðinu í Úkraínu. Þessi kenning hans hefur hljómgrunn meðal ýmissa á Vesturlöndum. Stjórnir Finnlands og Svíþjóðar hafna henni og segja þvert á móti að aðild landanna að NATO verði til að auka stöðugleika og minnka líkur á stríði.

Pútin lét þessi nýjustu ummæli um NATO falla á fundi með leiðtogum fyrrverandi Sovétlýðvelda þegar þeir komu saman á vettvangi hernaðarbandalags ríkjanna undir forystu Rússa. Pútin sagði að Bandaríkjastjórn notaði stækkun NATO á „ögrandi“ hátt til að gera alvarlegt ástand öryggismála enn verra.

Pútin sagði Rússa ekki eiga í neinum útistöðum vegna Finnlands og Svíþjóðar, þess vegna stafaði þeim engin bein hætta af stækkun NATO vegna aðildar landanna.

„Á hinn bóginn kallar það að sjálfsögðu á andsvar okkar, verði hernaðarlegir innviðir á landsvæði þeirra styrktir,“ sagði Pútin við leiðtoga landanna í Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni (e. Collective Security Treaty Organization). Aðildarríkin eru auk Rússlands: Hvíta-Rússland, Armenia, Kazakhstan, Kyrgyzstan og Tajikistan.

„Hvert það [andsvarið] verður – við skulum sjá hvernig okkur verður ógnað,“ sagði Pútin á fundinum í stóru Kremlarhöllinni. „Algjörlega að ástæðulausu er verið að skapa vandamál. Við munun bregðast við í samræmi við það.“

Rússnesk yfirvöld hafa ekki nefnt neitt sérstakt þegar rætt er um andsvar þeirra við fjölgun norrænu ríkjanna í NATO. Þessi stækkun bandalagsins er stærsta strategíska viðbragðið til þessa við innrás Rússa í Úkraínu.

Dmitríj Medvedev, einn nánasti bandamaður Pútins, sagði í apríl að Rússar gætu flutt kjarnorkuvopn og ofurhljóðfrá flugskeyti til rússnesku hólmlendunnar Kaliningrad færu Finnar og Svíar í NATO. Vestrænir sérfræðingar telja að nú þegar hafi Rússar sett niður kjarnorkuvopn í Kaliningrad.

Áður en Pútin flutti ræðu sína sagði Sergei Rjabkov, vara-utanríkisráðherra Rússlands, að enginn skyldi halda að rússneskir ráðamenn létu sér norræna stækkun NATO einfaldlega lynda.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …