Home / Fréttir / Pútin samþykkir að nota neyðarsjóð til vopnakaupa

Pútin samþykkir að nota neyðarsjóð til vopnakaupa

Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Vladimír Pútín Rússlandsforseti,
Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Vladimír Pútín Rússlandsforseti,

Valdimír Pútín Rússlandsforseti sagði laugardaginn 19. september að tryggja yrði rússneska hernum og hergagnaframleiðendum stöðugan fjárhagslegan bakhjarl þótt efnahagur Rússlands versnaði.

Dmitríj Rogozin, varaforsætisráðherra Rússlands, sagði að Pútín styddi þá hugmynd að gengið yrði í neyðarsjóð Rússlands, Rosrezerva, (einskonar viðlagasjóð) til að standa undir kaupum á tækjum til landhersins og flotans.

„Hið mikilvæga markmið er að tryggja fjárhagslegan stöðugleika fyrir fyrirtæki sem framleiða búnað í þágu varnarmála,“ sagði Rússlandsforseti á fundi samstarfsnefndar hers og framleiðenda laugardaginn 19. september í Donguzkíj Range í Orenburg-héraði í Rússlandi þar sem hann fylgdist með helstu heræfingum rússneska hersins á árinu 2015.

Pútín sagði að standa yrði við þá vopnaframleiðslusamninga sem gerðir hefðu verið.

Hann sagði að í árslok yrði að gera upp áhrif verðbólgu við hergagnaframleiðendur sem glímdu við fjárhagsvanda vegna samdráttar í efnahagslífinu. Vegna minnkandi tekna gætu þeir ekki fest fé í rannsóknum og þróun. Við þessu yrði að bregðast með því að tryggja verðtryggðar greiðslur frá ríkinu, Lagði forsetinn áherslu á að öll samningsákvæði yrðu virt.

Hann sagði öllum ljóst að gengi rúblunnar sveiflaðist og fjárhæðir kynnu að breytast en ekki ætti að láta við það sitja að skoða tölur á blaði, þær dygðu ekki hernum heldur „hlutir“ úr málmi og framboð á þeim yrði að tryggja.

Leggja ætti hergagnaframleiðendum til aukið fé til að styrkja efnahag þeirra, sagði forsetinn, á þann hátt væri unnt að bæta grunnstoðir hersins og ýta undir þróun á vopnum og búnaði til að eignast hin fullkomnustu hergögn og tæki.

 

Heimild: TASS

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …