Home / Fréttir / Pútin sakar Vestrið um djöfladýrkun – ætlar að verjast af öllu afli

Pútin sakar Vestrið um djöfladýrkun – ætlar að verjast af öllu afli

Söfnuður Pútins í Kreml fagnaði ræðu hans með standandi lófaklappi.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti ræðu í Kreml föstudaginn 30. september 2022 þegar hann tilkynnti innlimun fjögurra héraða í Úkraínu í Rússland.

Reuters-fréttastofan sendi búta úr ræðunni í enskri þýðingu sinni. Hér er stuðst við þann útdrátt og fyrirsagnir fréttastofunnar:

BOÐSKAPUR TIL KYÍV

„Ég vil að ráðamenn í Kyív og raunverulegir stjórnendur þeirra í Vestrinu heyri hvað ég segi svo að þeir muni það. Íbúar í Luhansk og Doentsk, Kherson og Zaporizhzhia eru orðnir ríkisborgarar okkar. Að eilífu.

Við hvetjum stjórnina í Kyív til að binda tafarlaust enda á hernaðaraðgerðir, binda enda á stríðið sem hún hóf árið 2014 og setjast að nýju að samningaborðinu.

Við erum tilbúnir til þess … Við munum hins vegar ekki ræða val íbúanna í Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhia og Kherson. Það liggur fyrir. Rússar munu ekki bregðast þeim.“

VÖRN LANDS OKKAR

„Við munum verja land okkar með öllu afli sem við höfum yfir að ráða.“

ÞJÓÐ SUNDRAÐ

„Árið 1991 gerðist það í Belovezh skógi, án þess að leitað væri álits almennra borgara, að fulltrúar flokkselítunnar, sem þá réð, ákváðu að eyðileggja SSSL [Samband sovésku sósíalísku lýðveldanna, Sovétríkin] og fólki fannst það allt í einu svipt ættjörð sinni. Þetta sleit í sundur og sundraði þjóð okkar, varð að hörmulegri þjóðlegri ógæfu …

Ég viðurkenni að þeir skildu ekki til fulls hvað þeir gerðu og hverjar afleiðingarnar yrðu óhjákvæmilega að lokum. Þetta skiptir þó ekki máli lengur. Sovétríkin eru horfin, fortíðin verður ekki kölluð fram að nýju. Í Rússlandi samtímans höfum við ekki lengur þörf fyrir það. Að því keppum við ekki.“

Vladimir Pútin flytur ræðu í Kreml 30. september 2022.

MIKLA SÖGULEGA RÚSSLAND

„Örlögin og sagan hafa kallað okkur að vígvelli, það er vígvöllurinn fyrir þjóð okkar, fyrir mikla sögulega Rússland, fyrir framtíðarkynslóðir, börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn.“

NORD STREAM SKEMMDARVERK

„Refsiaðgerðir dugðu ekki Engilsöxunum: þeir gripu til skemmdarverka. Erfitt er að trúa því en það er samt staðreynd að þeir stóðu að baki sprengjunum við alþjóðlegu Nord Stream gasleiðslurnar sem liggja á botni Eystrasalts … Öllum er ljóst hverjir hafa hag af þessu.“

KJARNORKU FORDÆMI

„Bandaríkjamenn eru eina þjóð heims sem hefur notað kjarnavopn tvisvar sinnum, þeir eyðilögðu japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki og gáfu með því fordæmi.

Enn þann dag í dag er málum meira segja þannig háttað að þeir hernema í raun Þýskaland, Japan og Lýðveldið Kóreu auk annarra landa og kalla þjóðir þeirra síðan kaldhæðnislega jafnsetta bandamenn.“

VESTRÆN DJÖFLADÝRKUN

„Nú hafa þeir farið lengra en nokkru sinni, á róttækan hátt hafna þeir siðferðislegum viðmiðum, trú og fjölskyldu …

Einræðisþrá vestrænna elíta snýr að öllum þjóðfélögum, einnig að þeim sem búa í vestrænu löndunum sjálfum. Þetta er ögrun við alla. Í þessu felst algjör afneitun á allri mannúð; trú og hefðbundnum gildum er kollvarpað. Í raun hefur undirokun frelsisins sjálfs tekið á sig trúarlega mynd: ómengaðrar djöfladýrkunar.“

NÝLENDUHYGGJA

„Vestrið mótaði nýlendustefnu sína á miðöldum og síðan kom þrælasalan, þjóðarmorð á kynþáttum indíána í Ameríku, gripdeildirnar á Indlandi, í Afríku og stríð Englendinga og Frakka gegn Kínverjum…

Það sem þeim tókst var að gera heilar þjóðir háðar eiturlyfjum, þeir þurrkuðu markvisst út heila þjóðflokka. Þeir veiddu fólk eins og dýr til að ná undir sig landi og auðlindum. Þetta stangast á við allt mannlegt eðli, sannleika, frelsi og réttlæti.

MENNTUN OG KYN

„Er málum virkilega þannig háttað hér í landi okkar, Rússlandi, að við viljum í stað „mömmu“ og „pabba“ tala um „foreldri nr. 1“, „foreldri nr. 2“ „nr. 3·“? Hafa þeir endanlega tapað glórunni? Viljum við virkilega að því sé troðið í hausinn á börnum okkar í skólum að við hlið kvenkyns og karlkyns séu líklega fleiri kyn og að [börnum] sé boðið að gangast undir kynskiptaaðgerðir? Framtíð okkar er önnur, okkar eigin framtíð.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …