
Petro Porosjenkó Úkraínuforseti og Philip Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, hafa sakað Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að reyna að beita alþjóðasamfélagið blekkingum með málflutningi sínum um Sýrland.
Úkraínuforseti sagði á allshejarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York þriðjudaginn 29. september að tillaga Rússa um að gera bandalag við Vesturlönd gegn Ríki íslams (RÍ) „væri forvitnileg en ekki trúverðug“.
Hann sagði að í eitt og hálft ár hefðu Rússar sýnt Úkraínumönnum tilefnislausan yfirgang. Í blekkingarskyni tækju þeir einkennismerkin af hermönnum sínum og hergögnum.
Forsetinn sagði Rússa einnig kaupa hryðjuverkamenn og málaliða til að berjast í Úkraínu auk þess sem þeir legðu ólöglegum sveitum vígamanna til vopn og annan herbúnað.
„Hvernig er unnt að hvetja til þess að stofnað sé bandalag gegn hryðjuverkamönnum á sama tíma og ýtt er undir hryðjuverk við eigin dyragátt?“ spurði Porosjenkó.
Rússar hafa undanfarið aukið herbúnað sinn í Latakia í Sýrlandi undir því yfirskyni að þeir ætli að takast á við RÍ. Philip Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, telur hins vegar að þessi hervæðing eigi ekkert skylt við baráttu gegn hryðjuverkamönnum.
Mánudaginn 28. september flutti hann ræðu í Washington hjá bandarísku hugveitunni German Marshall Fund og sagði Rússa vera að koma fyrir hátækni-loftvarnakerfi.
„Þegar við sjáum betur að til sögunnar er að koma mjög öflugt loftvarnakerfi í Sýrlandi óttumst við dálítið að verið sé að setja niður enn eina A2/AD-kúlu og að þessu sinni við austurhluta Miðjarðarhafs,“ sagði hershöfðinginn og bætti við:
„Að koma sér upp svo háþróuðu loftvarnakerfi á ekkert skylt við RÍ, þar er um eitthvað annað að ræða … Pútín er mikið í mun að vernda ríkisstjórn Sýrlands gegn þeim sem beita hana þrýstingi.“
A2/AD er skammstöfun fyrir það sem á ensku er lýst með orðunum anti-access/area denial – það er fyrir kerfi sem fæla flugher og herskip frá því að halda inn á átakasvæði.
Breedlove sagði að Rússar hefðu nú þegar komið sér upp A2/AD-kerfum á Eystrasalti og Svartahafi. Í Sýrlandi vekti frekar fyrir Rússum að efla áhrif sín en berjast gegn RÍ.