Home / Fréttir / Pútín sakaður blekkingar í Sýrlandi

Pútín sakaður blekkingar í Sýrlandi

Philip M. Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO.
Philip M. Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO.

Petro Porosjenkó Úkraínuforseti og Philip Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, hafa sakað Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að reyna að beita alþjóðasamfélagið blekkingum með málflutningi sínum um Sýrland.

Úkraínuforseti sagði á allshejarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York þriðjudaginn 29. september að tillaga Rússa um að gera bandalag við Vesturlönd gegn Ríki íslams (RÍ) „væri forvitnileg en ekki trúverðug“.

Hann sagði að í eitt og hálft ár hefðu Rússar sýnt Úkraínumönnum tilefnislausan yfirgang. Í blekkingarskyni tækju þeir einkennismerkin af hermönnum sínum og hergögnum.

Forsetinn sagði Rússa einnig kaupa hryðjuverkamenn og málaliða til að berjast í Úkraínu auk þess sem þeir legðu ólöglegum sveitum vígamanna til vopn og annan herbúnað.

„Hvernig er unnt að hvetja til þess að stofnað sé bandalag gegn hryðjuverkamönnum á sama tíma og ýtt er undir hryðjuverk við eigin dyragátt?“ spurði Porosjenkó.

Rússar hafa undanfarið aukið herbúnað sinn í Latakia í Sýrlandi undir því yfirskyni að þeir ætli að takast á við RÍ. Philip Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, telur hins vegar að þessi hervæðing eigi ekkert skylt við baráttu gegn hryðjuverkamönnum.

Mánudaginn 28. september flutti hann ræðu í Washington hjá bandarísku hugveitunni German Marshall Fund og sagði Rússa vera að koma fyrir hátækni-loftvarnakerfi.

„Þegar við sjáum betur að til sögunnar er að koma mjög öflugt loftvarnakerfi í Sýrlandi óttumst við dálítið að verið sé að setja niður enn eina A2/AD-kúlu og að þessu sinni við austurhluta Miðjarðarhafs,“ sagði hershöfðinginn og bætti við:

„Að koma sér upp svo háþróuðu loftvarnakerfi á ekkert skylt við RÍ, þar er um eitthvað annað að ræða … Pútín er mikið í mun að vernda ríkisstjórn Sýrlands gegn þeim sem beita hana þrýstingi.“

A2/AD er skammstöfun fyrir það sem á ensku er lýst með orðunum anti-access/area denial – það er fyrir kerfi sem fæla flugher og herskip frá því að halda inn á átakasvæði.

Breedlove sagði að Rússar hefðu nú þegar komið sér upp A2/AD-kerfum á Eystrasalti og Svartahafi. Í Sýrlandi vekti frekar fyrir Rússum að efla áhrif sín en berjast gegn RÍ.

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …