Home / Fréttir / Pútín sagður stefna að ríkisöryggisráðuneyti að fyrirmynd frá Stalín

Pútín sagður stefna að ríkisöryggisráðuneyti að fyrirmynd frá Stalín

FSB-menn að störfum.
FSB-menn að störfum.

 

 

Í rússneska blaðinu Kommersant var fyrir skömmu skýrt frá því að fyrir næstu forsetakosningar í Rússlandi, í mars 2018, væri ætlun ráðamanna í Kremlarkastala, forsetaskrifstofunni, að koma á fót risavöxnu nýju ráðuneyti sem nái yfir allar starfandi öryggisstofnanir í Rússlandi.

Heimildarmenn Kommersant segja að þessi nýi risi verði kallaður ríkisöryggisráðuneytið, skammstafað MGB á rússnesku. Það er sama nafnið og Jósep Stalín, einræðisherra Sovétríkjanna, gaf ofríkiskerfinu sem hann hélt úti frá 1946 til dauðadags 1953. Eftir dauða Stalíns var MGB breytt í KGB, ríkisöryggisnefndina.

Í Kommersant segir að innan MGM verði Alríkisöryggisstofnunin (FSB), sem nú er helsta öryggisstofnun rússneska ríkisins, einnig Alríkisvarðliðið (FSO) sem stendur vörð um háttsetta embættismenn og nær til Öryggissveitar forsetans (SPB).

Þá er ætlunin að MGB gleypi Stofnun njósna erlendis (SVR). Á rannsóknarsviði MGB verður glímt við stærstu glæpamál innan ríkisins auk þess sem starfsmenn MGB munu fara með yfirstjórn margra réttarvörsluaðila í Rússlandi svo sem innanríkisráðuneytisins og Rannsóknarnefndar ríkisins.

Verði þessar breytingar gerðar yrðu þær síðasta stórátak Vladimirs Pútíns forseta til að umbylta rússneska öryggiskerfinu. Fyrr á árinu kom hann á fót Þjóðvarðliðinu sem gætir landamæra Rússlands, berst gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, gætir almannafriðs og öryggis lykilmannvirkja í landinu.

Viktor Zolotov, fyrrv. lífvörður Pútíns í St. Pétursborg, er forstjóri Þjóðvarðliðsins og tekur við fyrirmælum milliliðalaust frá Rússlandsforseta.

Blaðamaður Voice of America ræddi við nokkra sérfræðinga og spurði hvort það vekti í raun fyrir rússneskum stjórnvöldum að endurvekja öryggiskerfi í sömu mynd og það var á tíma Stalíns.

Boris Volodarskíj, fyrrv. foringi innan njósnastofnunar rússneska hersins, GRU, taldi að slík áform væru raunverulega á döfinni og nafnið á nýja ráðuneytinu væri engin tilviljun. Þjóðvarðliðið ætti fyrirmynd hjá Stalín og nú ætti að fella njósnir og öryggismál innan lands og utan undir eina stjórn eins og í tíð Stalíns.

Volodarskíj segir að FSB eða núverandi yfirmenn þar muni ekki gegna lykilhlutverki innan nýja ráðuneytisins, MGB. Ekki eigi að líta FSB sem neina forystustofnun á þessu sviði núna heldur miklu frekar Alríkisvarðliðið (FSO) og Öryggissveit forsetans (SPB) innan þess. Það séu útsendarar frá SPB sem ráði mestu innan þessa kerfis öryggisstofnana. Þaðan hafi Viktor Zolotov komið fyrst í innanríkisráðuneytið til að ná þar öllum þráðum á eina hendi og síðan sem yfirmaður Þjóðvarðliðsins.

Andrei Soldatov, sérfræðingur í málefnum rússneskra öryggisstofnana og aðalritstjóri vefsíðunnar Agentura.ru segir að nú þegar hafi FSB tekið á sig mynd KGB, sovésku öryggislögreglunnar.

Hann segir að í valdatíð Pútíns undanfarin 16 ár hafi FSB látið víða að sér kveða en stefnan hafi breyst fyrir ári þegar stofnunin tók að helga sig tveimur meginviðfangsefnum: leit að njósnurum og undirokun ákveðinna hópa. Þetta hafi einmitt verið helstu verkefni KGB sem hafi haldið sovésku þjóðlífi í greip sinni með ofsaleit að njósnurum og með því að safna gögnum um elítuna og beita þeim gegn henni væri það talið nauðsynlegt. Nú eigi að ganga lengra á þeirri braut og þess vegna sé við hæfi að stofna MGB.

Soldatov segir jafnframt að FSB hafi ekki sömu áhrif og fyrir 10 árum. Ekki sé lengur unnt að kenna FSB við „nýja aðalinn“, nú se ekki lengur leitað þangað eftir starfsmönnum, valið sé í trúnaðarstöður innan kerfisins úr röðum FSO-manna og teknókrata.

Andrei Kolesnikov, sérfræðingur við Moskvuskrifstofu Carnegie-stofnunarinnar, segir að það sé til marks um hræðslu Kremlverja við framtíðina að þeir vilji koma á fót einu valdamiklu ráðuneyti öryggismála. Þessi ótti birtist í ýmsum myndum, við það sem kunni að gerast á heimavelli eða í útlöndum, hvað almenningur kunni að gera, hvernig efnahagslífið þróist, allt geti þetta valdið ólgu og hana verði að kæfa á einhvern hátt.

 

Heimild: Danila Galperovich hjá Voice of America (VOA)

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …