Home / Fréttir / Pútín reiður vegna bandarísks lista – Trump heldur að sér höndum

Pútín reiður vegna bandarísks lista – Trump heldur að sér höndum

Valdimír Pútín og Donald Trump.
Valdimír Pútín og Donald Trump.

Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur birt lista með nöfnum 210 rússneskra embættismanna og milljarðamæringa sem litið er á sem elítuna í valdakerfi Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Þeir sem eru á listanum sæta sérstöku eftirliti af hálfu bandarískra yfirvalda og kunna að sæta refsiaðgerðum sem Pútín hefur kallað „óvinabragð“. 

Listinn var birtur skömmu eftir miðnætti þriðjudaginn 30. janúar í Washington. Þar er að finna nöfn 114 háttsettra rússneskra stjórnmála- og embættismanna og 96 „oligarka“, auðmanna, sem bandarísk yfirvöld segja að hafi auðgast eða öðlast völd vegna tengsla sinna við Pútín. 

Listinn var saminn að ósk fulltrúadeildar Bandaríkjaþings vegna krafna um að þrýstingur yrði aukinn á Rússa vegna ásakana um að þeir hefðu blandað sér í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum árið 2016. 

Pútín fordæmdi gerð listans og sagði „hafið yfir allan vafa að um óvinabragð“ væri að ræða. Verknaðurinn mundi „flækja frekar alvarlega stöðu mála í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna og án vafa spilla almennt fyrir alþjóðasamskiptum“. 

Forsetinn gaf jafnframt til kynna að stjórn sín mundi halda aftur af sér enda væri „algjör fásinna að færa samskipti okkar á núllpunkt“. 

Pútín sagði á framboðsfundi vegna forsetakosninganna í Rússlandi: 

„Ég leyni því ekki að við biðum eftir þessari skýrslu. Við vorum tilbúnir að gera ráðstafanir – svo alvarlegar að þær hefðu þurrkað út tengsl okkar. Við munum hins vegar láta það ógert að sinni. 

Fyrir okkur vakir að af vinna af þolinmæði að því að skapa eins náin tengsl og hinn aðilinn – bandaríski aðilinn – vill.“ 

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, sagði skýrsluna „ögrandi“ og „einstæða“ en Rússar mundu kynna sér hana náið áður en þeir tækju formlegri afstöðu til hennar, þeir mundu „ekki láta tilfinningarnar ráða“. 

Birting skýrslunnar með nafnalistanum jafngildir ekki ákvörðun um að bann hafi verið sett á þá sem þar er að finna. Stjórn Donalds Trumps forseta hefur skýrt Bandaríkjaþingi frá því að hún muni að þessu sinni ekki innleiða nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum. 

Á listanum má finna nöfn 43 aðstoðarmanna og ráðgjafa Pútíns þar á meðal Dmitríjs Peskovs, 31 ráðherra þar á meðal Dmitríjs Medvedevs forsætisráðherra og Sergeis Lavrovs utanríkisráðherra, þingmanna og æðstu manna í öryggis- og njósnastofnunum ríkisins. 

Forstjórar stærstu ríkisfyrirtækjanna eiga nöfn sín á listanum, þar á meðal Igor Setsjín, forstjóri risa-olíufélagsins Rosneft, og German Gref, forstjóri Sberbank. 

Við val á auðmönnum, oligörkum, ákvað bandaríska fjármálaráðuneytið að halda sig við þá sem öruggar heimildir telja að séu meira virði en nemur einum milljarði dollara. 

Á auðmannalistanum má finna Roman Abramovitsj, Alisher Usmanov, Mikhail Prokhorv, sem á bandarískt NBA-körfuboltalið, Oleg Deripaska og Jevgeníj Kaperskíj. 

Peskov sagði við blaðamenn þriðjudaginn 30. janúar að í raun væru allir á listanum kallaðir „óvinir Bandaríkjanna“. Þótt ekki væri mælt fyrir um refsingu á listanum kynni skráning á hann að leiða til þess að orðspor fyrirtækja, forstjóra, stjórnmálamanna og forystumanna biði hnekki. 

Vinur Pútíns, Konstantin Kosastjíov, formaður utanríkisnefndar efri deildar rússneska þingsins, sagði að bandarísk yfirvöld hefðu „valið þann kost að afrita símaskrána í Kreml“. 

Pútín reyndi að gera grín að listanum með þeim orðum að hann hefði „móðgast“ við að sjá nafn sitt ekki á honum. Hann hélt því jafnframt fram að höfundar listans beindu spjótum sínum að Trump í innri átökum í bandarískum stjórnmálum – í sömu andránni sagði hann að listanum væri beint gegn hverjum einasta Rússa. 

Heimild: RFE 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …