Home / Fréttir / Pútin ræðst gegn internetinu

Pútin ræðst gegn internetinu

39903641_401

Umdeild ný lög sem tóku gildi föstudaginn 1. nóvember í Rússlandi heimila yfirvöldum þar að rjúfa samband netnotenda við alþjóðlega internetið. Samtökin Fréttamenn án landamæra segja þetta „hættulegt skref“ að sögn þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle. Með þessu fari „netritskoðun á nýtt stig“ í Rússlandi.

Fræðilega heimila nýju lögin rússneskum yfirvöldum að einangra landið frá ákveðnum sviðum alþjóðlegs internetsins. Yfirlýst markmið laganna er að tryggja snurðulausa virkni rússneska netsins á hættustund eða undir utanaðkomandi árás. Gagnrýnendur laganna benda hins vegar á að með þeim sé heimiluð ritskoðun á efni á netinu sem Kremlverjum mislíki og fari hún fram undir yfirskini „öryggisógnunar“.

Samtökin Fréttamenn án landamæra segja að í skjóli laganna geti yfirvöld stöðvað miðlun efnis án þess að segja almenningi hvað hafi verið stöðvað og hvers vegna.

Þúsundir manna hafa mótmælt lögunum sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti ritaði undir í maí.

Í lögunum er einnig að finna ákvæði sem mæla fyrir um sjálfstæð rússnesk lén, Domain Name System (DNS), sem koma til sögunnar 1. janúar 2021. Með þessu herða yfirvöld enn tök sín á allri umferð um netið.

Enn er óljóst hvort áform rússneskra yfirvalda ganga upp tæknilega. Í þeim felst meðal annars að allar rússneskar netveitur og aðrar þjónustuveitur verða að innleiða tækni sem leyfir fjölmiðlaráði Rússlands, Roskomnadzor, að stöðva gagnaumferð. Eins og málum er nú háttað ráða veiturnar almennt ekki yfir þessari tækni.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …