Home / Fréttir / Pútín og Prígósjín segja hvor sína sögu baf uppreisninni

Pútín og Prígósjín segja hvor sína sögu baf uppreisninni

 

Norska ríkisútvarpið birti þessa mynd af fleugleið Prígósjíns frá Rostov við Don til Minsk.

Vladimir Putin Rússlandsforseti flutti fimm mínútna sjónvarpsávarp síðdegis mánudaginn 26. júní og sagði að allar tilraunir til að beita kúgun til að ná völdum í Rússlandi væru „dauðadæmdar“. Hann brást þannig reiður við valdaránstilburðum Wagner-málaliðananna undir lok liðinnar viku. Þeim var hætt síðdegis laugardaginn 24. júní.

Forsetinn sagði að uppreisnarmennirnir vildu að Rússar berðust innbyrðis. Þeir hefðu hins vegar „misreiknað“ sig illilega. Hann þakkaði þeim sem héldu að sér höndum til að koma í veg fyrir blóðbað.

Pútín sagðist ætla að standa við loforð sitt frá laugardeginum 24. júní um að Wagner-vígamenn ættu þrjá kosti: (1) að flytjast til Belarús, (2) að skrifa undir samning við varnarmálaráðuneytið eða (3) að snúa einfaldlega aftur til heimila sinna og fjölskyldna.

Hann minntist ekki einu orði á Jevgeníj Prígósjín, eiganda Wagner-hópsins, sem stjórnaði uppreisninni.

Dmitríj Peskov, blaðafulltrúi forsetans og Kremlverja, hafði látið mikið með ræðu Pútíns áður en hann flutti hana. Forsetinn mundi „segja ýmislegt sem skipti miklu“. Peskvo sagði:

„Án þess að ég kveði of fast að orði vil ég segja að þessar yfirlýsingar munu ákvarða örlög Rússlands.“

Eftir á séð var þessi lýsing á mikilvægi þess sem Pútin sagði fjarri því að vera sönn. Pútin sagði ekkert um hvort Prígósjín yrði refsað fyrir það sem forsetinn kallaði landráð laugardaginn 24. júní.

Áður en Pútín flutti sjónvarpsávarp sitt hafði Jevgeníj Prígósjín Wagner-foringi sett 11 mínútna hljóðupptöku inn á samfélagsmiðilinn Telegram. Þar sagði hann að uppreisnin hafi verið masterclass – meistaraþjálfun – í því hvernig standa ætti að innrás. Ekkert hafði heyrst frá Prígósjín frá því að hann kvaddi Rostov við Don að kvöldi laugardagsins 24. júní við mikinn fögnuð borgarbúa.

Hann sagði að markmið uppreisnarinnar hefði ekki verið að velta Pútín úr sessi heldur að koma í veg fyrir að Wagner-hópur málaliðanna yrði eyðilagður eins og ætlunin hefði verið að gera frá og með 1. júlí 2023.

Á Telegram sagði Prígósjín að uppreisn sín og manna sinna hefði varpað ljósi á margt af því sem hann hefði talið ástæðu til að ræða áður, að um landið allt væri öryggisgæsla í molum. „Við stóðum í vegi fyrir öllum einingum heraflans og aðgerðum frá flugvöllum á leið okkar.“

Talið er að Wagner-herinn hafi skotið niður allt að sjö vopnaðar þyrlur sem sendar voru gegn honum á leið hans til Moskvu og fellt á fjórða tug manna.

Í ávarpinu baðst Prígósjín afsökunar á því að þeir hefðu talið nauðsynlegt að granda flugvél en kastað hefði verið sprengjum úr vélinni á þá og flaugum hefði verið skotið í áttina til þeirra.

Hann færði Alexander Líkasjenkó, forseta Belarús, þakkir fyrir að láta sig málið varða og leita leiðar til að Wagner-málaliðarnir gætu starfað áfram innan lagalegrar umgjörðar.

Fréttir bárust að morgni þriðjudagsins 27. júní um að einkaflugvél Prígósjíns hefði lent á herflugvelli skammt frá Minsk, höfuðborg Belarús.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …