
Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur nú í fyrsta sinn talað afdráttarlaust um hernaðaraðgerðir gagnvart Úkraínu frá því að síðasta rússneska liðssöfnunin hófst við landamæri Rússlands og Úkraínu.
Á fundi með fulltrúum rússneska varnarmálaráðuneytisins og hersins þriðjudaginn 21. desember boðaði Pútin að Rússar kynnu að grípa til „hernaðaraðgerða“ gegn „árásaraðgerðum“ Vesturveldanna í Úkraínu. Þeir myndu snúast af „hörku gegn óvinveittum skrefum“. Bandaríkin og NATO ýttu undir spennu í nágrenni við landamæri Rússlands.
Rússlandsstjórn hefur vikum saman gefið til kynna að gripið yrði til aðgerða til að stemma stigu við því að Vesturveldin þrengdu að rússnesku landamærunum. Nú lætur Pútin hins vegar í fyrsta sinn heyra í sér opinberlega vegna málsins:
„Við höfum áhyggjur af því að Bandaríkjamenn og NATO eru að efla herstyrk sinn rétt við rússnesku landamærin fyrir utan að efna til víðtækra æfinga án þess að allar þeirra hafi verið áætlaðar,“ sagði Pútin
Hann sagði við embættismenn varnarmálaráðuneytisins að héldu Vesturveldin áfram að sýna á sér þessa „augljósu árásarhlið“ gætu rússnesk stjórnvöld ekki gert annað en grípa til „viðeigandi hertæknilegra gagnráðstafana“.
Stjórnvöld í Úkraínu óttast að Pútin ætli að ráðast inn í land þeirra snemma á næsta ári. Bandarikjastjórn og NATO saka Pútin um að draga saman meira en 100.000 manna herlið við austur landamæri Úkraínu.
Rússar neita ásökunum um að þeir undirbúi innrás og krefjast þess að fallið verði frá öllum áformum um aðild Úkraínu að NATO.
Í ræðunni þriðjudaginn 21. desember lýsti Pútin „gífurlegum áhyggjum“ þegar hann sakaði Bandaríkjamenn um að setja upp stýriflaugar í Póllandi og Rúmeníu.
„Verði þessi tæki flutt lengra – ef eldflaugakerfi Bandaríkjanna og NATO sjást í Úkraínu – þá verða flaugarnar aðeins sjö til 10 mínútur að ná til Moskvu,“ sagði forsetinn.
Pútin sagði að af hálfu stjórnarinnar í Moskvu hefðu ekki verið settar fram neinar „úrslitakröfur“ þrátt fyrir hættuna á átökum.
„Rússar eru andvígir blóðsúthellingum, þeir vilja leysa mál með öryggistryggingum á vettvangi stjórnmála á diplómatískan hátt,“ sagði hann.
Sergeij Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, hélt einnig ræðu á þessum sama fundi. Hann sakaði bandarísk einkafyrirtæki um að „undirbúa ögrun með efnablöndum í austurhluta Úkraínu“. Hann benti á að Bandaríkjaher héldu úti 8.000 manna liði í austurhluta Evrópu.
Bandaríkjamenn hafa gefið til kynna að hugsanlega ræði þeir við Rússa í byrjun komandi árs til að kanna hvort unnt sé að draga úr þessari spennu á diplómatískum vettvangi.
Í breska blaðinu The Telegraph er haft eftir Karen Donfried, vara-utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkjamenn séu reiðubúnir að ræða við Rússa um tillögurnar sem þeir hafa kynnt. Sumt að því sé vert að skoða betur og þess vegna sé tilefni til að ræða málið sameiginlega.
NATO hefur einnig lýst vilja til viðræðna og sömu sögu er að segja um nýju, þýsku ríkisstjórnina sem leggur áherslu á samstöðu NATO-þjóðanna.
Samhliða því sem mikill rússneskur herafli er við landamæri Ungverjalands er efnt til átaka í netheimum og hafa Bandaríkjamenn og Bretar sent sérfræðinga í nethernaði til Úkraínu til að styrkja varnir landsins gegn netárásum af ótta við að ætlun Rússa sé að gera orkukerfi Úkraínumanna óvirkt með netárás.
Sagt er að rússneskir tölvuþrjótar eigi auðvelt með að brjótast inn í orkustjórnkerfi Úkraínu af því að það má rekja til þess tíma þegar Úkraína var hluti Sovétríkjanna. Í desember 2015 brutust þrjótar inn í úkraínska orkukerfið og tóku rafmagnið af 230.000 notendum þess.