Home / Fréttir / Pútin líkir sér við Pétur mikla vegna landvinninga

Pútin líkir sér við Pétur mikla vegna landvinninga

 

Vladimir Pútin og Pétur mikli

Vladimir Pútin fagnaði 350 ára afmæli Péturs mikla Rússakeisara fimmtudaginn 9. júní með því heimsækja sýningu um keisarann í Moskvu. Pútin flutti þar ræðu yfir ungum rússneskum frumkvöðlum og líkti hernaði sínum á hendur Úkraínumönnum við það þegar Pétur mikli lagði undir sig Eystrasaltsströndina á 18. öld í stríði við Svía.

Hann lagði áherslu á að keisarinn hefði verið að endurheimta landsvæði sem var réttmæt eign Rússa.

„Hann var að endurheimta og styrkja [Rússlands]“ sagði Pútin, hallaði sér aftur á bak í hægindastólnum áður en hann gaf til kynna með brosi að hann gerði nú slíkt hið sama með hernaðinum í Úkraínu. „Já, það hefur einnig orðið hlutskipti okkar að endurheimta og styrkja.“

Pútin minntist þess einnig að þegar Pétur mikil stofnaði St. Pétursborg „viðurkenndi ekkert ríki í Evrópu að þetta landsvæði væri hluti Rússlands“. Svíar fóru þá með yfirráð á svæðinu.

Fréttaskýrendur segja að með þessum orðum hafi Pútin vísað beint þess sem gerist núna, þegar vestræn ríki viðurkenna innlimun hans á Krímskaga í Rússland og neita einnig að sætta sig við landvinninga Rússa í suður- og austurhluta Úkraínu undanfarna þrjá mánuði.

St. Pétursborg er nú önnur stærsta borg Rússlands stofnuð árið 1703. Hún var höfuðborg rússneska keisaradæmisins í meira en 200 ár eða þar til í rússnesku byltingunni 1917.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, segir að Pútin „meti mikils“ hlutverk keisarans í rússneskri sögu. Sjálfur er Pútin frá St. Pétursborg og hefur hann styttu á skrifborði sínu í formlegu forsetaskrifstofunni.

Pétur mikli háði mikla norðurstríðið við Svía árin 1700 til 1721. Rússakeisari myndaði bandalag með Dönum, Norðmönnum og Litháum og hnekkti yfirráðum Svía í norður-, mið- og austurhluta Evrópu.

Með sigri á Svíum í mikla norðurstríðinu gerði Pétur mikli Rússa að leiðandi þjóð og mikilvægum þátttakanda í málefnum Evrópu. Hann lagði einnig áherslu á nútímavæðingu og horfði vestur á bóginn í leit að fordæmum til að umbreyta her Rússa, stjórnarháttum, kirkjuvaldinu og samfélaginu í heild.

Að Pétur mikli sneri sér svo afgerandi til Evrópu setur enn mikilvægan svip á viðhorf Rússa. Eftir að innrás Rússa í Úkraínu leiddi til vaxandi óvildar í garð Rússa á Vesturlöndum hefur Moskvuvaldið hins vegar gert minna en áður úr því hve Pétur hafði mikið dálæti á Evrópu og beint athyglinni einungis að landvinningum hans. Margir Rússar óttast að nú hafi Pútin tekist með ofbeldi sínu og stríðsglæpum að loka „glugganum til vesturs“ sem Pétur mikli opnaði.

Pétur mikli var keisari frá 1682 til dauðadags 1725.

Fyrir nokkrum dögum spurði rússneskur blaðamaður Peskov hvort glugginn til Evrópu væri að lokast. Hann svaraði: „Enginn ætlar sé að loka neinu.“

Þetta bar einnig boðskapur Pútins til ungu rússnesku frumkvöðlanna. Rússar mundu ekki einangra sig frá öðrum löndum heims eins og á tíma Sovétríkjanna. Þótt Bandaríkjamenn eða Evrópuþjóðir vildu ekki eiga viðskipti við Rússa gætu þeir snúið sér til Asíu, Suður-Ameríku og Afríku.

„Efnahagslíf okkar verður opið – sá sem ekki sýnir því áhuga stelur frá sjálfum sér,“ sagði Pútin. „Það er ómögulegt girða af land eins og Rússland og við höfum ekki áform um að setja upp slíka girðingu sjálfir umhverfis okkur.“

Heimildir Euronews – NYT

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …