
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði eftir að hafa hitt Vladimir Pútín Rússlandsforseta á fundi í Kína fyrir skömmu að hugsanlega vildi Pútín búa við ástand sem einkenndist af „stöðugum lágstemmdum átökum“. Vísaði Obama þar til ástandsins í Úkraínu. Bent er á að skilgreina megi sprengjuárásir Rússa í Sýrlandi á þennan hátt og einnig háþróaðar tölvuárásir þeirra á Bandaríkjamenn í því skyni að trufla kosningabaráttuna. Hið sama má segja um ögranir Rússa með flugi hervéla í Evrópu og á N-Atlantshafi.
Richard Haas, forseti áhrifamikilla bandarískra samtaka áhuga- og fræðimanna um utanríkismál, Council on Foreign Relations, sendir á næstunni frá sér nýja bók, A World in Dissary, Heimur í uppnámi. Hann segir við The New York Times (NYT) föstudaginn 30. september að þetta sé rétt mat hjá Obama. Pútín vilji standa að lágstemmdum átökum. Því verði Bandaríkjamenn síðan að velta fyrir sér hvað þeir vilji láta Pútín bera mikinn kostnað vegna þessa, beint og óbeint.
NYT segir að ekkert af þessum átökum hafi í raun kostað Pútín mjög mikið. Að beita sér með tölvuárásum sé raunar kjörin aðferð fyrir ríki í sporum Rússlands – efnahagurinn versni stöðugt, landsframleiðslan sé svipuð og á Ítalíu. Tölvuárásir kosti lítið, erfitt sé að rekja þær til eins aðila og þær séu kjörnar til að skapa óreiðu sem sé kannski það eina sem fyrir Pútín vaki.
Bandarískir greinendur og njósnarar standi hins vegar frammi fyrir stærri spurningu: Vakir eitthvað meira fyrir Rússlandsforseta? Á þessari stundu telja þeir að svo sé líklega ekki. Pútín beiti að mestu taktískum aðferðum i von um að styrkja ímynd sína á alþjóðavettvangi á sama tíma og vandamálin hlaðast upp á heimavelli.
Ráðgjafar Bandaríkjaforseta hafa um eins árs bil ekki viljað fallast á að skilgreina beri samskiptin við Rússa sem kalt stríð. Ekki sé um neinn hugmyndafræðilegan ágreining að ræða. Enginn skeki kjarnorkuvopn þótt unnið sé að endurnýjun þeirra hjá báðum eftir fækkun þeirra í tvo áratugi. Vissulega sé mannlegur harmleikur að gerast í Sýrlandi en þar sé ekki um beina strategíska ógn við Bandaríkin að ræða.
Ekki eru þó allir áhrifamenn um mótun utanríkisstefnu Bandaríkjanna á þessu máli. Sumir þeirra segja að Pútín hafi haldið þannig á málum í Sýrlandi að hann hafi haldið John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, „upp á snakki“ um vopnahlé og pólitískar breytingar í Sýrlandi á sama tíma og Rússar hafi styrkt eigin stöðu og skjólstæðings síns, Sýrlandsforseta, Bashar al-Assad. Nú hafi allt sem Kerry ætlaði að ná orðið að engu á fáeinum dögum vegna sprengjuárása Rússa og sýrlenska stjórnarhersins.
NYT segir að gagnaðgerðir Bandaríkjastjórnar hafi vísvitandi verið blandaðar. Augljóst sé að viðskiptabannið eftir innlimun Rússa á Krímskaga skili árangri, Rússar fari ekki leynt með að þeir vilja það afnumið. Á hinn bóginn hafi Bandaríkjastjórn ekki sakað Rússa um að hafa brotist inn í tölvukerfi stjórnar Demókrataflokksins eða um að hafa stolið skrám yfir kjósendur í Arizona og Illinois, eða fyrir að hafa brotist inn í snjallsíma kosningasmala Demókrata.
Innan forsetaembættisins og utanríkisráðuneytisins hafa ýmsir gengið fram fyrir skjöldu og andmælt tregðu Obama til að skella skuldinni opinberlega á Rússa. Obama heldur aftur af sér vegna þess að annars telur hann hættu á að Pútín stigmagni ágreininginn.
Bent er á að innan njósna- og greiningarstofnana Bandaríkjanna hafi fáir spáð því að samskiptin við Rússa færu á þennan veg. Undanfarin 15 ár hefur athygli þessara stofnana beinst að aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum, hefðbundin viðfangsefni fortíðar hafa orðið að víkja. Þau hafa ekki verið strikuð út og nú er meiri athygli og nýjum fjármunum beint að þeim.
NYT segir að til þessa hafi Pútín haldið sig réttu megin við strikið þegar hann hafi lagt sig fram um að hræða NATO-þjóðir með sprengjuþotum, kjarnorkukafbátum við strendur þeirra og heræfingum við landamæri Eistlands og Lettlands.
„Þetta gerist allt á gráu svæði með aðferðum gráa svæðisins,“ segir Robert Kagan, sagnfræðingur við Brookings-stofnunina í Wahington, sem hefur skrifað um endurkomu geopólitískra átaka. Hann segir Bandaríkjamenn standa frammi fyrir þessari spurningu: „Viljum við einnig starfa á gráa svæðinu?“
Heimild: NYT.