Home / Fréttir / Pútin kynnir varalið til bjargar Lukasjenko í Hvíta-Rússlandi

Pútin kynnir varalið til bjargar Lukasjenko í Hvíta-Rússlandi

Aleksander Lukasjenko og Vladimir Pútin.
Aleksander Lukasjenko og Vladimir Pútin.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði við rússneska ríkissjónvarpið fimmtudaginn 27. ágúst að hann hefði komið á fót varaliði lögreglu sem senda mætti til Hvíta-Rússlands ef nauðsynlegt þætti. Mál væru þó ekki enn á því stigi.

Pútin sagði að Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefði beðið sig um „að stofna sérstakt varalið lögreglu“ og „ég hef gert það,“ sagði Pútin: „Við samþykktum einnig að það yrði ekki notað fyrr en ástandið yrði stjórnlaust.“

Mótmæli gegn endurkjöri Lukasjenkos hafa staðið frá kjördegi 9. ágúst. Fimmtudaginn 27. ágúst voru 13 blaðamenn handteknir í miðborg Minsk áður en skipulögð mótmælaaðgerð hófst. Innanríkisráðuneytið sagði að þeir hefðu verið fluttir á lögreglustöð til að sannreyna skilríki þeirra, reyndust þau rétt yrði þeim sleppt.

Pútin sagði Rússum skylt að aðstoða stjórnvöld Hvíta-Rússlands við öryggisgæslu í samræmi við náið bandalag ríkjanna og lagði áherslu á djúp menningarleg, þjóðleg og málfarsleg tengsl þjóðanna.

Hann sagði að varaliðið færi ekki til Hvíta-Rússlands nema „öfgahópar sem nota pólitísk slagorð sem yfirvarp fari yfir ákveðin mörk og hefji vopnuð rán, kveiki í bílum, húsum, bönkum, reyni að leggja undir sig stjórnarbyggingar og svo framvegis“.

Hann lýsti jafnframt þeirri skoðun að almennt væri „ástandið þó að jafna sig núna“.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði að Pútin talaði um að endurheimta stjórn mála í Hvíta-Rússlandi til að fela óvinveitt brot á alþjóðalögum. Þegar í stað yrði að falla frá áformum í þessa veru.

Rússland og Hvíta-Rússland eiga aðild að Sameiginlega öryggisbandalaginu ásamt öðrum fyrrverandi ríkjum sem voru hluti Sovétríkjanna.

Þjóðirnar tvær mynduðu formlegt samband sín á milli árið 1996 sem átti að stuðla að frekari samruna og skapa borgurum landanna gagnkvæman rétt til starfa og búsetu í báðum löndunum.

Sarah Reinsford, fréttaritari BBC í Moskvu segir óljóst til hvaða liðsafla Pútin vísi. Hann tali ekki um venjulega götulögreglu heldur hafi í huga annars konar lið, til dæmis óeirðalögreglu, þjóðvarðliða (Rosgvardia) eða jafnvel öryggislögregluna, FSB. Nú blasi við að einhvers konar rússnesk íhlutun sé í boði og ógni bæði stjórnarandstöðuforingjum og mótmælendum – og að auki Vestrinu.

Pútin hafi oftar en einu sinni sagt að Rússum stæði ekki á sama um hvað gerðist handan landamæranna. Mótmælendur væru ekki á götum úti í Hvíta-Rússlandi ef allt væri þar í himna lagi.

Maria Kolesnikova
Maria Kolesnikova

Maria Kolesnikova (38 ára), tónlistarkona og aðgerðarsinni, félagi í Samræmingarráðinu sem andstæðingar Lukasjenkos hafa myndað, hefur verið kölluð til yfirheyrslu af lögreglunni. Við komuna að húsi rannsóknarnefndar lögreglunnar var hún hyllt með lófataki þegar hún hvatti mótmælendur til að láta ekki deigan síga.

Rannsóknarnefnd saksóknara yfirheyrði Nóbelsverðlaunahafann og rithöfundinn Svetlönu Alexeivitsj miðvikudaginn 26. ágúst. Hún sagði blaðamönnum að hún hefði neitað að svara spurningum saksóknaranna og að starfsemi Samræmingarráðsins félli að öllu leyti undir lög landsins.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …