
Undir lok árs 2019 kom til harðra orðaskipta milli Vladimirs Pútins Rússlandsforseta og Mateusz Morawieckis, forsætisráðherra Póllands. Pútin sagði á blaðamannafundi 19. desember 2019 og endurtók síðar að rekja mætti upphaf annarrar heimsstyrjaldarinnar til framgöngu Pólverja. Pólski forsætisráðherrann segir þetta „lygar“.
„Pútin forseti hefur nokkrum sinnum logið um Pólland, og hann hefur alltaf gert það af ásetningi,“ sagði Morawiecki í fjögurra blaðsíðna yfirlýsingu. „Þetta gerist yfirleitt þegar stjórnvöld í Moskvu sæta alþjóðlegum þrýstingi vegna gerða sinna. Þessi þrýstingur er ekki vegna liðinna, sögulegra atburða heldur vegna geópólitískrar stöðu í samtímanum.“
Með þessum orðum vísaði Morawiecki til refsiaðgerða Bandaríkjastjórnar vegna lagningar Nord Stream 2 gasleiðslunnar um Eystrasalt frá Rússlandi til Þýskalands, til bannsins sem sett var á rússneska íþróttamenn vegna lyfjamisnotkunar og deilunnar um orkuviðskipti milli Rússa og Hvít-Rússa. Pólski forsætisráðherrann telur Pútin vilja beina athygli frá þessum vandræðum með því að fara með lygar um Pólverja.
Pútin fór nýlega afsakandi orðum um leynilega griðasáttmálann sem Hitler og Stalín gerðu árið 1939 milli Þýskalands nazista og Sovétríkjanna. Þeir sömdu um „áhrifasvæði“ sín á milli í Evrópu til að komast hjá átökum sín á milli. Pútin gerði lítið úr gildi sáttmálans og fullyrti að Pólverjar bæru einnig sína ábyrgð á styrjöldinni, pólitískir forystumenn þjóðarinnar hefðu hatað gyðinga og Jozef Lipski, pólski sendiherrann í Þýskalandi fram til 1939, hefði verið „bastarður, svín haldið gyðingahatri“. Sagt væri að sendiherrann sem sat á stríðsárunum hefði lofað Hitler minnismerki í Varsjá fyrir brottflutning gyðinga þaðan.
Föstudaginn 27. desember var rússneski sendiherrann kallaður á teppið í pólska utanríkisráðuneytinu. Morawiecki forsætisráðherra gaf síðan yfirlýsingu sína sunnudaginn 29. desember í samráði við Andrzej Duda forsætisráðherra. Í yfirlýsingu sinni minnti Morawiecki á að rússneska þjóðin hefði fært mestar fórnir vegna Stalíns. Rússar ættu skilið að heyra „sannleikann“ í stað „hlutverkaskipta á glæpamönnum og fórnarlömbum“.
Alls féllu um sex milljónir Pólverja í síðari heimsstyrjöldinni eða 17% íbúa landsins fyrir stríð. Mannfall Sovétmanna vegna styrjaldarinnar er talið vera um 20 milljónir, helmingur þeirra almennir borgarar, eða um 11% íbúa Sovétríkjanna,
Pólverjum var ekki einum misboðið vegna orða Pútins. Manuel Sarrazin, þingmaður þýskra græningja og talsmaður flokksins í málefnum austurhluta Evrópu á þýska sambandsþinginu, sagði að Rússlandsforseti vildi „fela að Sovétmenn voru samábyrgir þýskum nazistunum við innrásina í Pólland … Hér er um að ræða túlkun á sögunni sem þjónar greinilega þeim tilgangi að réttlæta rússnesku ný-heimsvaldastefnuna sem nú er fylgt í Mið-Evrópu“. Rolf Nikel, sendiherra Þýskalands í Póllandi, sagði á Twitter: „Sovétmenn tóku þátt í því með Þjóðverjum að skipta Póllandi með ofbeldi.“
Þá sagði Georgette Mosbacher, sendiherra Bandaríkjanna í Póllandi, á Twitter: „Kæri Pútin forseti, Hitler og Stalín voru í leynimakki um að hefja síðari heimsstyrjöldina. Það er staðreynd. Pólland varð fórnarlamb þessara hryllilegu átaka.“
Afstaða Pútins sætir jafnvel gagnrýni í Rússlandi. Í dagblaðinu Kommersant sagði að nú þegar 75 ára afmæli endaloka stríðsins nálgaðist mótaði það aðgerðir Kremlverja og útleggingu þeirra á sögunni.
Í samtali við þýsku fréttastofuna DW sagði Kosma Zlotowski, ESB-þingmaður fyrir pólska stjórnarflokkinn Lög og réttlæti (PiS), að um langt skeið hefðu sést merki um að Rússar kysu að túlka söguna eins og gert var á tíma Stalíns. Pútín vildi hafa áhrif á afstöðu Pólverja og veikja stöðu þeirra meðal bandamanna sinna.
Söguskoðanir Pútins hafa ekki aðeins leitt til ágreinings við Pólverja. Rússlandsforseti hefur lent í útistöðum við Milos Zeman, forseta Tékklands, sem almennt er talinn vinveittur Rússum. Ástæðan fyrir ágreiningi Pútins við Tékka er að þeir vilja lögskipa frídag til að minnast blóðbaðsins sem varð þegar herafli undir merkjum Varsjárbandalagsins kæfði vorið í Prag árið 1968. Rússneska utanríkisráðuneytið lýsti snarlega „vonbrigðum“ sínum vegna þessara áforma. Zeman íhugar nú að taka ekki þátt í hátíðarhöldum í Moskvu í maí 2020 þar sem 75 ára afmæli stríðslokanna verður minnst.
Þá hefur talsmaður Pútins gefið til kynna að forsetinn ætli ekki til Auschwitz í lok janúar 2020 til að minnast þess þegar sovéski herinn frelsaði þá sem voru í útrýmingarbúðunum. Ein ástæðan fyrir þessari fjarveru Pútin er sögð kunna að vera sú að honum var ekki boðið til Póllands í september 2019 þegar þess var minnst að 80 ár voru frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.
Fram hjá því verður ekki litið að fáeinum dögum eftir að Þjóðverjar réðust inn í Pólland í vestri í byrjun september 1939 sendi Stalín sovéska herinn inn í Pólland úr austri. „Í augum þeirrar kynslóðar Pólverja sem kynntist lífinu í landinu á meðan því var skipt voru Þjóðverjar ekki verstu óvinirnir heldur Rússar,“ áréttar pólski sagnfræðingurinn Zbigniew Wozniczka. Að stríðinu loknu voru samskipti Pólverja og Rússa vinsamleg á formlegum vettvangi, víða í Póllandi ríkti og ríkir enn djúpstæð andúð á Rússum.
Sögulegar sættir sýndust þó hugsanlega í sjónmáli þegar Pútin hitti þáverandi forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, í Katyn-skógi 7. apríl 2010 – á staðnum þar sem Stalín lét fremja fjöldamorð á forystusveit pólska hersins og öðrum fyrirmönnum.
Það liðu þó ekki nema þrír dagar þar til flugvél pólsku ríkisstjórnarinnar fórst skammt frá Smolensk í Rússlandi. Um borð voru 96 farþegar og þeirra á meðal Lech Kaczynski, forseti Póllands. Var tilgangur ferðarinnar að minnast Katyn-fjöldamorðanna.
Kosma Zlotowski, þingmaður PiS, segir að síðan hafi samskipti Pólverja og Rússa verið slæm og ekki séu líkur á að þau batni. Ummæli Pútins um löngu liðna sögulega atburði tengda síðari heimsstyrjöldinni þjóni þeim tilgangi að sverta Pólverja í augum annarra þjóða frekar en ögra Pólverjum sjálfum.
Í september 2019 gagnrýndi Vladimir Pútin ályktun ESB-þingsins þar sem fram kom að Sovétmenn bæru sinn hluta ábyrgðar á síðari heimsstyrjöldinni samhliða Þjóðverjum.
Í ályktuninni var vísað til griðasáttmálans frá 1939 sem hefði miðað að því að skipta Evrópu á milli „tveggja alræðisstjórna“, Þýskalands nazista of Sovétríkjanna.
Pútin sagði ályktunina „tóma vitleysu“ og hafnaði henni. Í desember 2019 hóf Pútín ofangreinda ófrægingarherferð gegn Pólverjum og rússneska utanríkisráðuneytið hefur jafnframt tekið þátt í henni.
Heimild: DW og RFE/RL