Home / Fréttir / Pútin í Mariupol – glæpamaðurinn sækir blóðvöllinn heim

Pútin í Mariupol – glæpamaðurinn sækir blóðvöllinn heim

Vladimir Pútin í tónleikasal í Mariupol, salurinn var notaður undir sýndarréttarhöld yfir úkraínskum hermönnum.

Að kvöldi laugardagsins 18. mars heimsótti Vladimir Pútin Rússlandsforseti hernumdu borgina Mariupol sem rússneski herinn lagði í rúst í suðurhluta Úkraínu í fyrra. Fyrr um daginn hafði hann heimsótt barnaheimili á Krímskaga en föstudaginn 17. mars gaf Alþjóðaglæpadómstóllinn út handtökuskipun á hendur Pútin fyrir skipulagt brottnám barna frá Úkraínu.

Í tilkynningu frá Kreml sunnudaginn 19. mars sagði að þyrla hefði flutt Pútin til Mariupol og hann hefði ekið í skoðunarferð um borgina.

Á Krímskaga fór Pútin til hafnarborgarinnar Sevastopol og fagnaði að níu ár  voru frá því að hann innlimaði Krím í Rússland ólöglega í mars árið 2014. Segja fréttaskýrendur að með heimsókn sinni í barnaheimili á Krím hafi Pútin viljað lýsa fyrirlitningu sinni á handtökuskipun Alþjóðaglæpadómstólsins.

Á myndskeiði sem sýnt var í rússneska ríkissjónvarpinu sést að um heimsókn að kvöld- og næturlagi til hafnarborgarinnar Mariupol var að ræða. Pútin sést ganga um götu og ræða við vegfarendur. „Við biðjum fyrir ykkur,“ segir Pútin við einn  íbúanna og bætir við að bærinn sé „lítil paradís“.

Matsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að um 90% mannvirkja í borginni hafi orðið fyrir tjóni og um 350.000 hafi neyðst til að yfirgefa hana, fyrir stríðið bjuggu um 500.000 manns í borginni.

Þá fór Pútin í tónleikasal og fylgdist með frásögn af endurreisn borgarinnar, segja embættismenn í Kreml. Í þessum sal voru sviðsett réttarhöld yfir stríðsföngum sem Rússar handtóku eftir að þeir náðu Mariupol á sitt vald.

Rússar sátu mánuðum saman um Mariupol þar til hún féll þeim í hendur í maí 2022. Vörðust Úkraínumenn lengst í Azovstal iðjuverinu.

Úkraínumenn eru reiðir yfir heimsókn Pútins og segja hann „alþjóðlegan glæpamann“. Meira en 20.000 manns hafi fallið af hans völdum í átökum um borgina.

„Glæpamaðurinn snýr alltaf til baka á vettvang glæpsins,“ sagði Mykhail Podoljak, ráðgjafi Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta.

Þá benda Úkraínumenn á að farið hafi verið með Pútin um Mariupol í myrkri svo að hann sæi ekki afleiðingar fyrirmæla sinna um að eyðileggja borgina.

Á ferðalagi sínu hafði Pútin viðdvöl í rússnesku borginni Rostov við Don þar sem hann hitti rússneska herforingja, þeirra á meðal Valeri Guerassimov herráðsformann

Dags innlimunar Krímskaga í Rússland var einnig minnst í St. Pétursborg þar sem glæpaklíka mótorhjólamanna, Næturúlfarinir, sem hefur árum saman staðið nærri Pútin, efndi til skemmtunar.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …