
Vladimir Pútín Rússlandsforseti tók þátt hátíð rússneska herflotans í St. Pétursborg sunnudaginn 29. júlí og boðaði komu 26 nýrra herskipa í flotann, nokkur þeirra verða vopnuð Kalibr-stýriflaugum.
„Á árinu 2018 bætast alls 26 ný herskip við flotann, mótórbátar og skip, þar á meðal fjögur orrustuskip með Kalibr-stýriflaugar,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu.
Rússar hafa beitt Kalibr-stýriflaugum í hernaðaraðgerðum sínum í Sýrlandi. Þeim má fljúga mjög lágt og láta þær fylgja yfirborði jarðar. Á þann hátt er auðveldara en ella að brjótast í gegnum loftvarnir andstæðingsins.
Pútín sagði að átta ný skip hefðu þegar bæst í flotann á árinu, þar á meðal fjögur herskip, bátur til gagn-hryðjuverka og þrjú aðstoðarskip. Hann sagði að áfram yrði unnið að því að efla flotann.
Aðalhátíð flotadagsins var í St. Pétursborg með þátttöku um 4.000 sjóliða úr Norðurflotanum, Eystrasaltsflotanum, Svartahafsflotanum og Kaspíahafsflotadeildinni.
Flotadagurinn var einnig haldinn hátíðlegur í Kaliningrad við Eystrasalt, Sevastopol við Svartahaf og Vladivostok við Kyrrahaf.
Í rússnesku flotastöðinni í Tartus í Sýrlandi var dagsins einnig minnst með sýningu fimm herskipa og díselkafbáts af Kolpino-gerð.