
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að hverjum þeim sem reyni að „eyðileggja“ Rússland verði svarað á þann veg að það „leiði hörmungar yfir allt mannkyn“.
Forsetinn lét þessi orð falla í samtali við rússneska ríkissjónvarpið miðvikudaginn 7. mars. Pútín sagði að Rússar myndu svara sérhverri árás í sömu mynt:
„Ákveði einhver að eyðileggja Rússland þá höfum við lögmætan rétt til að svara. Já, það myndi þýða hnattrænar hörmungar fyrir allt mannkyn, fyrir allan heiminn. Sem rússneskur borgari og leiðtogi rússneska ríkisins spyr ég: Hvers virði væri heimurinn án Rússlands?“
Forsetinn sagði ljóst að Rússar myndu aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn öðrum þjóðum nema á þá yrði ráðist með slíkum vopnum.
„Ákvörðun um að beita kjarnorkuvopnum verður aðeins tekin ef viðvörunarkerfi okkar gerir viðvart um að eldflaug hafi verið skotið á loft og spáir einnig afdráttarlaust fyrir um flugleið hennar og hvenær kjarnaoddar ná inn á rússneskt yfirráðasvæði.“
Forsetinn lét þessi orð falla tæpri viku eftir að hann efndi til myndasýningar á nýjum langdrægum vopnum Rússa, þar á meðal kjarnorkuknúnum tundurskeytum, risavöxnum langdrægum eldflaugum (ICBM) með ofurhraða sprengjuoddum, stýriflaugum og land-leysigeislavopnum sem þegar hafa verið tekin í notkun.
Pútín sagði nýju vopnin komin til sögunnar vegna þess að Bandaríkjamenn hefðu brotið samninginn frá 1972 um bann við eldflaugavörnum. Þeir hefðu gert þetta til að geta þróað eldflaugatækni sína en Rússar hefðu tryggt að langdræg vopn sín gætu farið í gegnum öll nýjustu kerfi Bandaríkjamanna.
Í samtalinu fór Pútín lofsamlegum orðum um Donald Trump Bandaríkjaforseta og sagði hann „hófsaman“ forystumann. Pútín lýsti hins vegar vonbrigðum með bandaríska stjórnmálakerfið.
Hann sagði að sér „litist vel“ á Trump eftir að hafa hitt hann nokkrum sinnum í tengslum við alþjóðafundi.
„Það er hægt að ræða við hann í leit að málamiðlunum,“ sagði Pútín, hann hefði ekki orðið fyrir „neinum vonbrigðum“ með Bandaríkjaforseta. Hann sagði að ekki væri unnt að segja það sama um bandaríska stjórnmálakerfið, það væri óskilvirkt og græfi undan sjálfu sér.
„Það er mjög erfitt að eiga samskipti við slíkt kerfi, það er ófyrirsjáanlegt,“ sagði hann.
Þegar Pútín var spurður um spennuna í samskiptum Rússa og Vesturlanda sakaði hann Vesturveldin um að standa að samsæri til að þrengja að Rússum og veikja þá.
„Við erum stórveldi og enginn er hrifinn af samkeppni,“ sagði hann.
Pútín sagðist sérstaklega óánægður með aðild ráðamanna í Washington að aðförinni í febrúar 2014 gegn Viktor Janukovitsj, forseta Úkraínu, sem var hrakinn frá völdum.
Pútín segir að Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseti, hefði beðið Rússa að veita Janukovitsj þau ráð að beita ekki valdi til að kveða niður spennu í Úkraínu og síðan hefði hann „ruddalega og fyrirlitlega“ svikið Rússa með því að styðja „valdarán“.
„Þeir sem eitra fyrir okkur munu að lokum sjálfir þurfa að gleypa eitur,“ sagði Rússlandsforseti. Hann sagði að refsiaðgerðir Vesturlanda gagnvart Rússum vegna þess að Krím var endursameinað Rússlandi árið 2014 væru liður í „ólögmætum og ósanngjörnum“ tilraunum til að halda aftur af Rússum en bætti við þessum orðum: „Við sigrum þegar fram líða stundir.“