
Vladimir Pútin Rússlandsforseti lét orð falla í þá veru föstudaginn 17. júní í pallborðsumræðum með Kassym-Jomart Tokajev, forseta Kazakhstan, á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg, að fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna væru hluti Rússlands. Þau gætu átt yfir höfði sér sömu örlög og Úkraína færu þau gegn Kremlarvaldinu í Moskvu.
Samtal forsetanna var sýnt beint í sjónvarpi og þar sagði Kassym-Jomart Tokajev að hann viðurkenndi ekki tvö aðskilnaðarhéruð hlynnt Rússum í Donbas í austurhluta Úkraínu.
Í frásögn The Telegraph sunnudaginn 19. júní segir að Pútin hafi setið kyrr en bitið í tunguns á sér en síðan hvesst sig: „Hvað eru Sovétríkin? Þetta er sögulega Rússland.“
Síðan bar hann rólegur lof á Kazakhstan sem bræðraþjóð áður en hann fór ekki leynt með hótun sína þegar hann sagði: „Þannig hefði staða Úkraínu einnig getað verið, sannarlega, en þeir vildu ekki vera bandamenn okkar.“
Álitsgjafi í Nur-Sultan, höfuðborg Kazakhstan, sagði að Tokajev hefði „niðurlægt Pútin fyrir framan stuðningsmenn hans“ og ógnin væri raunveruleg: „Hann er að gera honum ljóst að Kazakhstan kunni að verða næsta bráð Rússa.“ Þá er haft eftir álitsgjafa í borginni Almaty: „Í orðum hans felst að sértu góður nágranni sé það í lagi. Takir þú hins vegar hliðarspor og hallir þér að Vestrinu getum við tekið land þitt því að við eigum það.“
Sérfræðingar utan Kazakhstan minna á að staða Tokajevs gagnvart Pútin sé mjög veik. Tokajev eigi í raun ekkert öruggt bakland heima fyrir og Pútin hafi tryggt honum forsetastólinn í janúar 2022 með því að senda rússneskar sérsveitir til að brjóta uppreisn heimamanna á bak aftur.
The Telegraph segir að í Norður-Kazakhstan við landamæri Rússlands óttist menn að Rússar ryðjist inn í landið. Þar sé beitt miklum stór-rússneskum áróðri og Rússar í landamærahéruðunum láti blekkjast af boðskap Pútins.
Uralsk er 300.000 manna borg í Kazakhstan. Þar dró rússneska keisaradæmið áður landamæri sín og í borginni eru keisaralegar byggingar til minningar um þá sögu, um þriðjungur íbúanna eru Rússar.
Kazakhstan er auðugt að jarðefnum og í norðurhluta landsins finnast mörg sjaldgæf jarðefni. Þá á Shell hlut í stórri gasvinnslu nálægt Uralsk. Her landsins má sín lítils.