
Rússar neita að aflétta hafnbanninu á Úkraínu þrátt fyrir áskoranir og varnaðarorð fulltrúa Sameinuðu þjóðanna um hættu á hungri um heim allan. Vladimir Pútin Rússlandsforseti er sakaður um að „hervæða“ fæðuöryggi heimsins sjálfum sér og Rússum til framdráttar.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að stríðið í Úkraínu skerði fæðuöryggi fátækari þjóða sem hafi ekki efni á að flytja inn nauðsynleg matvæli. Skapast kunni langvinnt hættuástand vegna fæðuskorts.
Vegna hafnbanns Rússa í Svarta hafi er ekki unnt að flytja út korn frá Úkraínu til landa í Afríku og Mið-Austurlöndum. Alþjóðlegt matvælaverð hefur hækkað um 30% miðað við sama tíma í fyrra, segir í skýrslu Sameinuðu þjóaðanna (SÞ).
Í ræðu sem Guterres flutti í New York fimmtudaginn 19. maí sagði hann að stríðið ásamt áhrifum af loftslagsbreytingum og heimsfaraldrinum gæti valdið fæðuskorti hjá milljónum manna og í kjölfarið sigldi vannæring og hungur.
„Það eru næg matvæli í heiminum um þessar mundir ef við vinnum saman. Við verðum hins vegar að leysa vandann í dag, gerum við það ekki stöndum við frammi fyrir alþjóðlegum matvælaskorti næstu mánuði.“
Hann sagði einu raunhæfu lausnina felast í því að opna aðgang að forðabúrum Úkraínu og matvælaframleiðslunni þar auk þess sem nýta yrði tilbúinn áburð frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi með því að opna honum leið út á heimsmarkaðinn.
Guterres sagðist vera í „nánu sambandi“ við fulltrúa Rússa og Úkraínu auk Bandaríkjanna og ESB í von um að geta opnað eðlileg alþjóðaviðskipti með matvæli.
Um 30% af hveiti í heiminum kemur frá Rússlandi og Úkraínu, fyrir stríðið var litið á Úkraínu sem „brauðkörfu“ heimsins en um 4,5 milljónir tonna af landbúnaðarafurðum fóru hvern mánuð um hafnir landsins.
Útflutningurinn hrundi eftir innrás Rússa í febrúar og verð á matvælum fór upp úr öllu valdi. Verðið hækkaði síðan enn frekar laugardaginn 14. maí þegar Indverjar bönnuðu útflutning á hveiti.
SÞ segja að um 20 milljónir tonna af uppskeru ársins 2021 séu í forðageymslum þar og yrði heimilað að flytja þau út mundi spennan á heimsmarkaði minnka.