Home / Fréttir / Pútín herðir tökin með nýju þjóðvarðliði

Pútín herðir tökin með nýju þjóðvarðliði

_89101166_89101165
Vladimír Pútín kynnir nýja þjóðvarðliðið, til hægri er Viktor Zolotov, yfirmaður nýja liðsins.

 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kynnti þriðjudaginn 5. apríl róttækar breytingar á gæslu innri öryggismála Rússlands. Forsetinn hefur ákveðið að koma á fót þjóðvarðliði. Nýjum liðsafla sem stendur á milli hefðbundinnar lögreglu og hersins er paramilitary eins og sagt er á ensku. Markmiðið er það þessum liðsafla verði beitt gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi auk þess að halda almennt uppi lögum og reglu.

Fréttastofan Sputnik sem er hliðholl forsetanum og einskonar málsvari hans út á við, gagnvart annarra þjóða mönnum, segir í úttekt á þessari breytingu að forsetinn hafi breytt svonefndum innri liðsafla innanríkisráðuneytisins í þjóðvarðlið sem muni starfa í „náinni samvinnu“ við ráðuneytið. Undir það heyrir hins vegar áfram almenn lögregla og umferðarlögregla.

Forsetinn sagði að þjóðvarðliðið mundi auk innri lögreglunnar sinna verkefna sem til þessa hafa verið á sviði OMON og SOBR sérsveita eða hraðliðs sem sent hefur verið á vettvang þar sem almenn lögregla þarf á aðstoð að halda eða vegna neyðaratkvika.

Þjóðvarðlið mun einnig koma að vörnum landamæra Rússlands, láta að sér kveða grípi einhverjir til vopnaðra aðgerða innan lands auk þess að gæta mikilvægra mannvirkja eins og kjarnorkuvera. Þá mun þjóðvarðliðið starfa náið með FSB, rússnesku njósna- og öryggisstofnuninni).

Sérfræðingar benda á að þjóðvarðliðið muni láta verulega að sér kveða þó ekki sé nema vegna þess að í því verða að minnsta kosti 430.000 manns. Liðið er vel tækjum búið og hefur aðgang að brynvörðum ökutekjum ræður auk þess yfir eigin flugvélum.

Viktor Zolotov verður yfirmaður þjóðvarðliðsins. Hann hefur stjórnað innri lögreglunni til þessa og einnig sérstakri öryggissveit forsetaembættisins. Nýja embættið veitir honum sömu stöðu og ráðherra í ríkisstjórn Rússlands. Hann heyrir beint undir forseta Rússlands.

Zolotov varð lífvörður Pútíns árið 1999 en hann hafði áður verið lífvörður Boris Jeltsín Rússlandsforseta og Anatolis Sobsjaks, borgarstjóra St. Pétursborgar, en í þeirri stöðu kynntist hann Pútín. Hann var yfirmaður öryggissveitar Rússlandsforseta á árunum 2000 til 2013.

Sputnik segir að sérfræðingar hafi ólíkar skoðanir á hvað vaki fyrir forsetanum með þessum breytingum. Sumir segi að á þennan hátt fái forsetinn nýtt tæki til að hlutast til um innri öryggismál án þess að bera það undir aðra innan stjórnkerfisins. Einnig kunni breytingin að hafa að markmiði að bæta stöðu Zolotovs innan stjórnkerfisins þar sem hann hafi átt undir högg að sækja gagnvart Vladimir Kolokoltsev innanríkisráðherra.

Aðrir líta þannig á að skoða verði breytinguna í ljósi þjóðaröryggis- og hernaðarstefnunnar frá 2014 þar sem skilgreindir hafi verið nýjar hættur við stöðugleika innan þjóðfélagsins.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …